Holl og góð kjúklingafiðrildi

Stundum langar mann meira að elda eitthvað einfalt og þægilegt heldur en að flækja hlutina - ekki skemmir fyrir þegar maturinn er hollur í ofanálag! 

Ekki alls fyrir löngu ákvað ég að skella í kjúklingafiðrildi með tómatkryddsalsa og það sameinaði þetta allt saman og ekki skemmdi fyrir að ég fékk einnig góða útrás með því að berja kjúklingabringurnar sundur og saman og í ofanálag þá fékk ég að nota uppáhaldsgrillpönnina mína - gæti þetta verið lengri setning? :)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
4 kjúklingabringur
1 hvítlauksgeiri
2 tómatar
1 skallottulaukur
3 msk ólífuolía
2 tsk rauðvínsedik
Salt og pipar
1/2 búnt fersk basilíka
2-3 msk þurrkað estragon
3 msk steinselja

Byrjaði á að taka til kjúklingabringuna og snyrta hana aðeins

Setti hana svo í poka og barði svo sundur og saman
með kökukefli (þarf að fá mér kjöthamar :-)

Út komu þessar þunnu og fínu kjúklingabringur.

Þá var að gera tómatsalsað ... Skar tómatana gróft.

Hakkaði hvítlaukinn og skar skallottulaukinn
í þunnar sneiðar.

Svo var bara að bæta ólífuolíunni og
rauðvínsedikinu út í.

Saxaði basilikuna og steinseljuna ...

og bætti að lokum estragoninu út í ásamt salti og pipar.

Svo var bara að blanda öllu saman.

Þá var að steikja kjúklinginn en ég kryddaði hann 
einfaldlega með salti pipar og smá cajun kryddblöndu.
Gætið að því að kjúklingurinn þarf mun styttri 
steikingartíma en venjulega vegna þess hversu þunnur 
hann er - hugsa að hann hafi verið á pönnunni í 2-3
mínútur á hvorri hlið.

Namm hvað ég fæ vatn í munninn við minninguna! 

Svo var bara að bera fram með tómatsalsanu, 
ólífum og glænýju grænkáli - hvað gæti verið betra
á fallegum sumardegi? 

Mæli óhikað með þessu! Bara gott og ótrúlega skemmtileg leið til að matreiða kjúkling.

Meira síðar.

Ummæli