Frábært meðlæti: Steiktar kartöflur, gljáðar gulrætur og tahini sósa

Þar sem bloggið á mánudaginn var orðið frekar langt þá sleppti ég þar úr öllu meðlætinu, enda tilvalið að vera eitt meðlætisblogg svona einstaka sinnum :-)

Meðlæti dagsins kom úr nýju uppáhaldsbókinni, sem ég nefndi um daginn, The accidental vegetarian, annars vegar steiktar kartöflur og hins vegar gljáðar gulrætur.  Svo var tahini sósa með falafelinu auðvitað!

Uppskriftin fyrir steiktu kartöflurnar var eftirfarandi
1 1/2 dl ólífuolía
4-6 stórar kartöflur, afhýddar
Sjávarsalt
Reykt paprikuduft (smoked paprika)

Kartöflurnar - reyndi að velja frekar stórar

Afhýddar ...

og skornar í grófa bita


Skellti þeim svo í pott

ásamt vatni og góðum slatta af salti, lét suðuna koma 
upp og sauð í ca. 4 mín

Tók svo til stórt eldfast form og setti ólífuolíuna í formið

Skellti olíunni svo inn í heitann ofninn (220°C) og leyfði 
henni að hitna þar vel og vandlega, eða þar til var farið 
að rjúka af henni 

Hellti vatninu af kartöflunum og setti pottinn aftur á helluna

Hristi svo pottinn aðeins svo þær brotnuðu aðeins upp

Tók svo formið út úr ofninum og setti kartöflurnar í olíuna
ATHUGIÐ gerið þetta VARLEGA ég er alveg með 
nokkur brunasár á höndunum eftir þetta :-) 
Enda olían alveg fáránlega heit!

Svo var bara að skella forminu aftur inn í ofninn og
leyfa því að vera þar í ca. 30 mínútur, en hræra í þeim
á 10-15 mínútna fresti

Eftir hálftíma tók ég þær út úr ofninum og saltaði þær þá

og hellti reyktu paprikudufti yfir  

Hrærði svo vel í þeim 

Nú er ég ekkert sérstaklega hrifin af kartöflum en vá hvað þessar voru hrikalega góðar :-)  Stökkar að utan og mjúkar að innan - vá hvað þetta verður gert aftur - það þrátt fyrir brunasárin!

Þá eru það gljáðu gulræturnar ...
450 gr gulrætur, skornar í litlar ræmur
1 tsk sykur
1 tsk kúmen (ég notaði reyndar rósmarín því ég átti ekki kúmen eins og ég hélt, en ég held það hafi eiginlega jafnvel verið betra :-)
40 gr smjör
Salt og pipar

Gulræturnar skornar í ræmur

Fullt af ræmum :-)

Skellti þeim svo á pönnu

ásamt vatni (bara þannig að það nái aðeins yfir 
gulræturnar), ásamt smá salti

Einni teskeið af sykri ...

og einni tsk af rósmarín 

og auðvitað smjör!
Leyfði þessu að sjóða í 8-10 mínútur

Hellti þá vökvanum af gulrótunum og setti í aðra pönnu,
þar leyfði ég vökvanum að sjóða áfram og rýrna um 2/3 

Skellti gulrótunum svo aftur út í vökvann,
hrærði vel saman og saltaði og pipraði

Svo var bara að skella þessu í skál og bera fram :-)

Þetta kom sömuleiðis á óvart, skemmtileg leið til að hressa upp á gulræturnar, en ég verð að viðurkenna að mér finnst þær alltaf bestar hráar!

Að lokum ... Tahini sósa 
1 dós grísk jógúrt
1-2 msk tahini
Búnt af steinselju
2 hvítlauksrif
Salt og pipar

Setti jógúrtina í skál 

1-2 msk tahini 

Hrærði þessu vel saman með gaffli

Bætti svo steinseljunni út í sömuleiðis og hrærði saman við

Að lokum hvítlaukurinn og smá salt og pipar

Voilá, góð og merkilega holl sósa :-)

Ég var eiginlega merkilega ánægð með þetta allt, sérstaklega var ég skotin í steiktu kartöflunum ... mmm, fæ vatn í munninn við minninguna!!  Sósan var líka þægileg í framkvæmd og bragði og örugglega hrikalega góð með grillsteikinni í sumar ... bara gott mál og vonandi enn betra sumar framundan.

Meira síðar.


Ummæli