Brownies með créme brûlée


Þó að það hafi verið lítið líf hér á síðunni síðustu mánuði þá er ég langt frá því að vera hætt að elda! Á síðustu helgi skellti ég í smá máltíð fyrir góða vini og þar sem engin máltíð er fullkomnuð nema með eftirrétti ákvað ég að nýta tækifærið og prófa nýja uppskrift sem ég hafði rekist á fyrir nokkru síðan. Því miður gafst mér ekki færi á að taka mynd af hverju skrefi en ég vona að þið takið samt sem áður viljann fyrir verkið :)

Uppskriftin endaði svona ... 
Súkkulaðibotninn
4 egg
1 dl púðursykur
3 dl sykur
1-2 msk vanilludropar
300 gr suðursúkkulaði
50 gr 70% súkkulaði
226 gr smjör
4 1/2 dl hveiti

Vanillubúðingur / Créme brûlée lag
8 dl rjómi
6 eggjarauður
180 ml sykur
2 tsk vanilludropar eða 1 vanillustöng

Takið fram eldfast mót og smyrjið það vel - ég notaði stórt mót ca. 36x24 cm með nokkuð háum hliðum. Stillið ofninn á 180°C.

Setjið egg, sykur og vanilludropa í stóra skál og hrærið vel saman.

Takið fram pott og setjið þar í súkkulaði og smjör og bræðið við meðalhita, gætið að því að brenna ekki súkkulaðið. Blandið súkkulaðiblöndunni saman við eggin og sykurinn og blandið vel saman. Sigtið svo hveitið og blandið saman við. Setjið í mótið og bakið í um 30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur út hreinn (athugið að baksturstíminn fer eftir stærð formsins og reyndist vera aðeins lengri hjá mér).

Leyfið kökunni að kólna í um 15 mínútur en ágætt er að nýta tímann á meðan til að búa til vanillubúðinginn sem er raunar ósköp einfalt. Takið fram stóra skál, setjið þar saman rjómann, eggjarauðurnar, sykurinn og vanilluna og notið písk til að blanda saman. Hellið svo blöndunni yfir súkkulaðibotninn. Setjið mótið í djúpa ofnskúffu og fyllið skúffuna af vatni þannig að það nái upp á mitt mótið eða þar um bil. Komið ofnskúffunni svo fyrir inn í miðjum ofninum og bakið í um 40 mínútur eða þar til búðingurinn hefur stífnað. Fjarlægið úr ofninum og leyfið að kólna. Að lokum stráið þið einfaldlega sykri yfir vanillubúðinginn og notið créme brûlée kyndil til að bræða sykurinn.

 Í stuttu máli þá heppnaðist þessi virkilega vel og verður örugglega gerð aftur - mæli óhikað með!



Ummæli