Ferskar vorrúllur með hnetusósu

Fyrir um tveimur árum heimsótti ég vinkonu mína út í New Haven. Hún er vegan og það er alltaf jafn gaman að koma í mat til hennar því hún er svo dugleg að prófa allskonar skemmtilega og virkilega góða rétti. Í hvert skipti sem ég kem frá henni er ég alveg einörð í að gerast vegan - hef bara aldrei náð einhvernveginn að ganga alla leið ... en það er annað mál!

Ein af uppskriftunum sem hún kynnti fyrir mér fyrir tveimur árum voru ferskar vorrúllur sem við gerðum saman og svo kynnti hún mig fyrir hnetusósunni hennar Sollu sem er í grænu Hagkaupabókinni. Algerlega ein besta hnetusósa sem ég hef fengið.

Þegar ég fékk svo vini og fjölskyldu í mat um daginn ákvað ég að þetta væri tilvalin forréttur til að prófa og ákvað að sjá hvort ég gæti ekki klórað mig framundan.

Uppskriftin endaði svona ... en það má endilega nota ímyndunaraflið :-) Mæli til dæmis alveg með að nota kóríander og allskynd salatspírur og fleira skemmtilegt!
1 rauð paprika
1 gul paprika
1/2 rauðkálshaus
1 avocado
1 gulrót
Vermicelli núðlur
1 pakkning hrísgrjónapappír

Hnetusósan hennar Sollu (úr grænu Hagkaupabókinni)
2 dl hnetusmjör
2 dl vatn
3 msk tamarisósa
4 döðlur
Hálft búnt kóríander
3 hvítlauksrif
1-2 msk sítrónusafi
1/4 tsk cayennepipar


Byrjaði á að skera allt grænmetið í mjóar ræmur.

Tók fram sæmilega djúpan disk sem hrísgrjónapappírinn
passaði á. Setti smá vatn á diskinn. Tók svo 
eitt blað í einu af hrísgrjónapappír og bleytti,
fyrst öðru megin og svo hinumegin. 

Raðaði svo grænmetinu og smá núðlum á 
hrísgrjónapappírinn og braut svo saman; 
fyrst tvær hliðar á móti hver annarri og svo þriðju
ofan á þessar tvær og rúllaði svo upp ofan á 
fjórðu hliðina. 

Úr þessu urðu þessar líka fallegu vorrúllur :-) 

Svo var að gera sósuna hennar Sollu. 
Skellti öllum innihaldsefnunum í blandarann ...

og blandaði einfaldlega þar til þetta var orðið 
allt saman vel blandað saman. 

Úr þessu varð hinn ágætasti forréttur og raunar hefði ég getað borðað þetta eingöngu - þetta var alveg hreint ferlega gott og hvarf hratt ofan í matargestina (skemmtileg leið til að plata grænmeti ofan í jafnvel hörðustu andgrænmetisætur)! Mæli óhikað með þessu.

Meira síðar.

Ummæli