Hádegissalat með perlukúskús

Ég veit ekki með ykkur en ég er alltaf í smá vandræðum með hádegismatinn. Ég hef reyndar verið heppin að vera með frábært mötuneyti í vinnunni síðustu tvö árin en vegna þess að ég er með fiskóþol þá þýðir það að ég hef stundum þurft að finna mér eitthvað annað að borða. Alltof oft fer ég út að borða, en við búum ótrúlega vel með fjölbreytta veitingastaði hérna á Akureyri og já, oft freistandi að fara þangað. Þá freistast maður líka til að velja kannski óhollari kosti en annars og það kostar líka peninga. Það er því miðsumarsheitið hjá mér í ár að vera duglegri að taka með nesti, eða hreinlega skjótast heim í hádeginu. Ætla að vera dugleg líka að nýta þá rétt til að deila með ykkur hér á blogginu í vetur :-)

Fyrsti hádegisrétturinn í þessari lotu var eiginlega alveg ferlega góður og verður örugglega gerður aftur. Yndislega einfaldur og fljótlegur sem er einitt það sem svona réttir eiga að vera. Það er líka einfalt að útbúa hann kvöldið áður sem skemmir heldur ekki fyrir.

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir einn til tvo
1/2 - 1 avocado, skorið í munnbita
Kirsuberjatómatar eftir smekk (ég notaði heila pakkningu)
1/2-1 gulrót, skorin í þunnar sneiðar
1-2 grænkálsblöð, rifið í bita
3-4 greinar af ferskum kóriander, saxað eða rifið eftir smekk
2-3 greinar af basiliku, saxað eða rifið eftir smekk
1 rauð paprika, skorin í bita
1 dl perlukúskús, soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka
~ 1 msk balsamikedik
~ 1 msk ólívuolía
Salt og pipar

Byrjaði á að skera grænmetið og setja í skál. Ég
ákvað að vera ekkert að skera tómatana þar sem 
ég vildi ekki að salatið yrði alltof blautt.  

Sauð perlúkúskús samkvæmt leiðbeiningunum.
Í pakkningunni sem ég var með var 1 bolli eða um
2 dl af kúkús sem átti að sjóða í tveimur lítrum af vatni. 
Þar sem þetta var bara fyrir mig ákvað ég að það 
væri fullmikið og tók einfaldlega bara einn 1 dl
og minnkaði vatnið í samræmi við það.
Hellti svo balsamikedikinu og ólívuolíunni út á 
og setti dash af salt og pipar sömuleiðis.

Blandaði þessu svo öllu saman og eins og ég sagði
áður þá var útkoman eiginlega alveg hreint frábær.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef unnið með perlukúkús og ég verð að ég er mjög hrifin af þessu hráefni. Þetta gefur skemmtilega tilbreytingu frá hefðbundnu pasta eða hrísgrjónum og er heldur formi sínu vel og klístrast ekki sem er kostur. Vek samt athygli á að þetta er hveitiafurð þannig að þessi afurð hentar ekki þeim sem eru með glútenóþol. Þennan rétt smá þó augljóslega gera með fleiru en perlukúskús - allt eftir smekk. Ég mæli í öllu falli með þessari blöndu :-) 

Vona að þið njótið! 

Meira síðar.

Ummæli