Ratatouille að hætti Ratatouille

Ég fékk góða erlenda gesti í kvöldmat fyrir viku síðan. Svo óvenjulega vildi til að ég hafði aldrei hitt meirihluta gestanna áður og vissi því ekkert um matarvenjur þeirra, t.d. hvort einhver væri grænmetisæta eða hvort einhver þeirra borðaði ekki svínakjöt. Ég vildi endilega leyfa þeim að kynnast íslenskri matargerð og bauð því upp á allskonar smakk í forrétt; osta, pylsur, sviðasultu, harðfisk, reyktan lax og kryddsíld. Í aðalrétt ákvað ég svo að bjóða upp á hægeldað lambalæri með rósmarín og sveppasósu úr íslenskum villisveppum auðvitað. Þá var bara að leysa það ef eitthvert þeirra reyndist vera grænmetisæta. Ég ákvað að gera það með þessum rétti sem ég deili með ykkur hér - þ.e. með því að útbúa rétt sem gæti gengið líka einfaldlega sem meðlæti með lambinu. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að skella í Ratatouille sem er einfaldlega frönsk grænmetiskássa. Þar sem ég var nú ekkert sérstaklega spennt fyrir að bera fram kássu ákvað ég að prófa að fara aðeins aðra leið í þetta skiptið - líkt og í myndinni Ratatouille sem flest ykkar þekkja vonandi. Þannig fannst mér þetta geta staðið betur sem stakur réttur ef á þyrfti að halda.

Uppskriftin var ...
1 eggaldin
1 smjörhneta
1 kúrbítur
1 gul paprika
1 rauð paprika
1/2 laukur
3-4 hvítlauksgeirar
1/2 dós niðursoðnir tómatar
1-2 tsk blóðberg eða timijan
Ólífuolía
3 msk philadelphia ostur

Byrjaði á að skera allt grænmetið,
saxaði fyrst laukinn og hvítlaukinn ... 

og notaði svo mandólín til að sneiða 
grænmetið í þunnar sneiðar.

Tók svo fram lítinn pott og hitaði
olíuna og steikti laukinn og hvítlaukinn.
Þegar laukurinn var orðinn mjúkur 
bætti ég tómötunum út í og kryddaði
með salt og pipar og einni teskeið timijan.
Hellti sósunni svo í eldfast mót 
og dreifði vel úr.  

Svo var bara að raða saman grænmetinu. Þetta 
reyndist vera smá handavinna - en vel þess virði. 

Raðaði grænmetinu í mótið,
byrjaði í ytri hring og endaði
í miðjunni.  

Kryddaði svo með timijan, salt og pipar.
Setti svo bökunarpappír yfir formið 
og skellti inn í ofninn í 45 mínútur í 190°C.

Voilá, tilbúið til þess að njóta - 
setti smá rjómaostbita ofan á en það 
er nú ekkert nauðsynlegt en gefur 
skemmtilegt bragð með grænmetinu.

Þetta reyndist vera virkilega góður réttur - bæði einn og sér og ekki síður með lambinu. Það er nú líka algerlega vesenisins virði að sneiða grænmetið á þennan hátt og taka tíma í að raða því upp enda fer þetta alveg vel á og er virkilega skemmtilegt að borða. Mun alveg örugglega gera þetta aftur. 

Meira síðar. 

Ummæli