Stundum vantar mann einfaldlega súkkulaði: Espressó súkkulaðikökur

Ég reyni svona almennt að halda mig á mottunni þegar kemur að mataræði og borða fjölbreytta og holla fæðu. Svo koma dagar þar sem ég hreinlega get ekki lifað nema ég fái óhollustu. Stundum vantar mann einfaldlega súkkulaði. Þá er lítið annað að gera en að skella í súkkulaðikökur og ég verð að viðurkenna að þessar eru með þeim betri sem ég hef prófað lengi - kannski út af því að ég er mikill saltfíkill og að finna súkkulaðibragðið í bland við saltið - já, einfaldlega fátt betra!

Innihaldið
200 gr suðusúkkulaði
80 gr 70% súkkulaði
85 gr smjör
2 msk skyndikaffi
80 ml hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 stór egg
1 1/2 dl sykur
1 tsk vanilludropar
Sjávarsalt (næst prófa ég jafnvel að nota lakkríssalt)

Byrjaði á að setja saman í pott smjörið,
súkkulaðið og skyndikaffið. 

Bræddi þetta allt og hrærði vel saman
þangað til að silkimjúk blanda varð til.
Tók þá pottinn af hitanum og leyfði
þessu aðeins að kólna.

Blandaði saman í lítill skál hveitinu
lyftiduftinu og saltinu.

Tók svo fram hrærivélina og setti í 
skálina sykurinn, eggin og vanilludropa.
Hrærði þetta saman þar til létt og ljóst.

Bætti þá súkkulaðiblöndunni út í
hrærivélarskálina og hrærði saman
þar til þetta hafði blandast vel.

Hellti þá hveitinu út í og blandaði saman við deigið
varlega með sleikju. Setti þá plast yfir deigið og 
setti út fyrir dyrnar í um 45 mínútur - klukkutíma.

Notaði svo matskeið til að búa til kúlur
(eða eitthvað í áttina að kúlum ...) og
raðaði á ofnplötu. Reyndi að gæta að
því að hafa sæmilegt pláss á milli því
þær dreifa svolítið úr sér í ofninum 
(ég gleymdi því miður að taka mynd).
Setti plöturnar svo inn í 165°C heitan 
ofn í um 10 mínútur.

Tók þær svo út úr ofninum og dreifði
smá sjávarsalti yfir hverja köku.
Gaf þeim svo smá tíma til að jafna sig
og kólna smá áður en ég tók þær 
af plötunni.

Þessar voru sattbestaðsegja alveg ferlega góðar og verða alveg örugglega gerðar aftur á þessu heimili. Dökka súkkulaðið gaf yndislegt biturt bragð í bland við kaffið og svo þetta líka magnaða saltbragð sem kom inn á milli ... já, mæli óhikað með þessum!

Meira síðar.

Ummæli