Grænmetisdhal með smjörhnetu, kúrbít, eggaldin og rauðum linsubaunum

Ég er mikill aðdáandi indverskrar matseldar og þegar er von á hópi fólks í mat þá er fátt betra til að bjóða upp á en góðan indverskan pottrétt og þar verður gott grænmetisdhal eða grænmetislinsubaunaréttur oftar en ekki fyrir valinu.

Hef boðið upp á þennan nokkrum sinnum núna og hefur aldrei klikkað. Hvet ykkur eindregið til að einblína ekkert of á hversu mikið krydd ég set í uppskriftina heldur einfaldlega nota upplýsingarnar hér sem grunn og vera svo óhrædd við að bæta við og smakka til.

Uppskriftin er eftirfarandi:
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
800 gr smjörhneta
1 stk kúrbítur
1 stk eggaldin
2 msk kóriander, malaður
1 msk cumin, malaður
2 msk turmerik, malað
1 tsk cayenne
400 ml niðursoðnir tómatar
1 dós kókosmjólk
1,5 l grænmetissoð (gott er að hafa auka grænmetisteninga til að bæta út í)
600 gr rauðar linsubaunir
Salt og pipar
Ferskur kóriander

Byrjaði á að taka til allt grænmetið,
saxaði laukinn og hvítlaukinn ...

Hreinsaði smjörhnetuna og skar í
passlega bita. 

Gerði svo slíkt hið sama við kúrbítinn
og eggaldinið.

Tók svo fram pönnu og hitaði olíu og
steikti svo laukana þar til þeir voru 
orðnir mjúkir. Bætti þá kryddunum
saman við laukinn.

Bætti svo smjörhnetunni saman við og komst þá
fljótlega að því að pannan var einfaldlega of lítil. 

Þá var lítið annað en að taka fram 
stóran pott og hella úr pönnunni í pottinn.
Bætti eggaldinu og kúrbítnum þá út í
og blandaði öllu vel saman.

Þá var að bæta soðinu og tómötunum 
út í og láta suðuna koma upp. Leyfði
þessu að sjóða í sirka 10-15 mínútur. 

Bætti þá kókosmjólkinni og 
linsubaununum út í og blandaði 
vel saman. Leyfði þessu að sjóða í 
um 20 mínútur eða þar til linsurnar
voru soðnar. Endilega verið óhrædd við
að nota suðutímann til að smakka
réttinn til og bæta við bæði salti, tening
og kryddum.  

Svo var bara að lokum að njóta.

Ég bar þetta fram með brauði (fer sérstaklega vel með naanbrauði) og er óhætt að segja að þetta hafi slegið í gegn. Mæli því óhikað með þessum - einfalt, þægilegt og virkilega bragðgott.

 Meira síðar.

Ummæli