Pastel de nata

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég Lissabon í Portúgal. Ég var svo heppin að fá að dvelja í borginni í heila viku og kynnast matarvenjum og hefðum íbúanna. Eitt af því sem ég kynntist er mjög svo vinsælt sætabrauð sem heitir á portúgölsku Pastel de nata. Þetta er einfaldlega smjördeigsskál fyllt með bökuðum vanillubúðing, en ég kolféll fyrir þessu einfalda sætabrauði og hefur síðan þá langað til að prófa að búa pastel de nata til sjálf.

Ég gaf mér loksins tíma til að prófa þetta nýlega og komst að því að þetta er bæði mjög einfalt að gera en líka alveg pinku flókið. Raunar tókst mér ekki alveg nógu vel upp, en það gerði nú ekki mikið til - bragðið var gott og stóðst alfarið væntingar. Vandinn var hins vegar að búðingurinn "hljóp" - Þetta gerist vegna þess að hitinn verður of mikill of hratt og egginn "eldast". Vandamálið við pastel de nata er svo að maður vill gera þetta við svolítinn hita því að það á að koma smá litur á búðinginn. Þetta tvennt fer því ekkert sérstaklega vel saman. Ég reyndi að lesa mér til um leiðir til að minnka líkurnar á því að þetta gerðist og einn stakk upp á því að baka fyrst deigið, taka út og setja búðinginn í og baka aftur með búðingnum. Ég prófaði það og hélt það hefði virkað - a.m.k. leit yfirborðið betur út - en innihaldið hafði samt sem áður hlaupið. Næsta skipti ætla ég að prófa að baka deigið og baka þetta svo í vatnsbaði eftir að búðingurinn er kominn í og sjá hvort það heppnist betur. Læt ykkur vita! Í öllu falli skiptir þetta ekkert öllu máli og sumir vilja jafnvel hafa búðinginn svona og bragðið var sem áður ferlega gott. Það er víst það sem skiptir mestu máli!

Uppskriftin var eftirfarandi ...
1 egg
2 eggjarauður
115 gr hrásykur
2 msk maísmjöl
400 ml matreiðslurjómi
2 tsk vanilludropar
2 plötur smjördeig (keypti einfaldlega frosið tilbúið deig ...)

Setti eggið, eggjarauðurnar, sykurinn 
og maísmjölið saman í pott og blandaði
vel saman. Bætti rjómanum smám saman
við ...

og hrærði þar til þetta var allt orðið
vel blandað og silkimjúkt. Setti þá 
pottinn á eldavélina og stillti á meðalhita.
Gætið að því að hræra stöðugt þar til að
blandan þykknar og suðan kemur upp.
Lenti einmitt í því í fyrraskiptið að ég
leit af pottinum í smástund og það brann
við í botninn. Mér tókst þó að bjarga 
búðingnum með því að setja hann í gengum
sigti - mæli með því ef þetta kemur
fyrir hjá ykkur - þó auðvitað með þeim
fyrirvara að ekki sé komið of mikið
brunabragð.  

Þegar búðingurinn hefur þykknað þá
takið pottinn af hitanum og bætið 
vanilludropunum út í. 

Hellið svo búðingnum í glerskál,
hyljið með plastfilmu og leyfið
að kólna.  

Á meðan er ágætt að vinna með deigið.
Ég tók tvær smjördeigsplötur og lagði
saman. 

Rúllaði þeim svo upp og notaði smá
vatn til að festa endann á rúllunni.


Skar rúlluna svo í u.þ.b. 10-12 bita
og rúllaði svo hvern bita út til að 
mynda hring. 

Hvern hring setti ég svo í muffinsform
til að mynda skálar.
Ég notaði nú einfaldlega sílikonform
og það virkaði stórvel.  

Í fyrraskiptið setti ég svo búðinginn 
beint í skálarnar og bakaði í 180°C 
heitum ofni í 20-25 mínútur.

Svona komu þær út í fyrraskiptið
og eins og áður segir þá ollu þær nú
engum vonbrigðum og smökkuðust
ferlega vel þó að útlitið hafi kannski
ekki verið alveg eftir bókinni.

Í seinna skiptið gerði ég eins nema ég 
setti deigið inn fyrst í sirka korter 
(hvítu kúlurnar eru til að halda deiginu
niðri og halda forminu á því, það 
er líka ágætt að nota t.d. 
þurrkaðar baunir). 

Tók deigið svo út úr ofninum og setti búðinginn 
í skálarnar (tók kúlurnar augljóslega úr fyrst). 
Þetta fór svo aftur inn í ofn í um 15-20 mínútur ...
var kannski fulllengi svona eftir á að hyggja en
það gekk ekkert hjá mér að fá búðinginn til að brúnast.

Í þetta skiptið má segja að þær hafi
heppnast betur að því leitinu að þær
litu betur út (er hér búin að taka þær
úr muffinsformunum), en búðingurinn
hafði samt sem áður hlaupið smá ... 
en sem áður smakkaðist þetta 
stór vel og ekki hægt að kvarta :-)

Ég mæli annars alveg óhikað með þessu. Þetta er alveg ferlega gott og sló alveg í gegn, a.m.k. í þessum tveimur matarboðum sem fengu að smakka þetta. Þetta er líka mjög einfalt að gera og tekur tiltölulega stuttan tíma sem er alltaf kostur. Það er svo vinsælt að strá flórsykri eða kanil yfir að lokum - mæli alveg með að prófa sig áfram með það!

Meira síðar.

Ummæli