Kjúklingasamloka með súrsuðu mangó

Þar sem ég lá í flensu og vorkenndi sjálfri mér ákvað ég að reyna að hressa mig aðeins við og elda eitthvað gott í kvöldmat og sjá hvort það myndi ekki hressa mig aðeins við. Ég hef verið mikill aðdáandi sænska kokksins Marcus Samuelsson lengi og hafði fyrir nokkru fundið uppskrift sem mig langaði að prófa á heimasíðunni hans sem var fiskisamloka með súrsuðu mangó. Þar sem ég er svo óheppin að vera með fiskóþol þá gekk það nú ekki. En mig langaði að prófa súrsaða mangóið og ákvað þess vegna að breyta uppskriftinni bara og nota kjúkling í staðinn fyrir fisk.

Uppskriftin endaði svona ...
1 baguette brauð
1 grænkálslauf

Kjúklingurinn
1-2 dl snakk (notaði Lays Naturel)
1 msk chilliduft
1 kjúklingabringa

Súrsað mangó
4 dl vatn
1 dl hvítvínsedik
2 mangó (t.d. 1 grænt, 1 rautt)
2 tómatar
1 dl sykur
2 græn chilli
2 jalapeno
1 rauðlaukur
4 hvítlauksgeirar
1 msk gul sinnepsfræ
2 lárviðarlauf
1 tsk kórianderfræ
Salt

Sítrónumajónes
2 dl majónes
1 msk ólífuolía
1/2 sítróna
1 lime
Limesafi
6 dropar tabascosósa
4 dropar Worcestershire sósa
1/2 tsk chillíduft
1/2 tsk salt

Byrjaði á að taka fram litla matvinnsluvél
og skellti í hana snakkinu og chillíinu.
Hakkaði þetta vel og vandlega saman 
þangað til þetta var orðið hálfgert duft.  

Setti snakkduftið í fat. 
Skar kjúklingabringuna í strimla ...

Velti kjúklingastrimplunum upp úr 
snakkinu þannig að kjúklingurinn 
var þakinn í snakki.  

Þá var að gera mangóið. Fyrir tilviljun
var ég með grænt og rautt mangó eins
og sagði í uppskriftinni. Munurinn er
er þó ekkert svakalega mikill - smá
bragðmunur en þetta græna er 
töluvert sætara. Ég held það skipti 
ekkert öllu máli þó að notuð séu tvö
mangó sömu tegundar.

Byrjaði á að skera græna mangóið í 
bita. Setti það í pott ásamt vatninu og
hvítvínsedikinu. Setti á eldavélina og lét 
suðuna koma upp. Lækkaði þá hitann
og leyfði þessu að malla í um 10 mínútur. 

Á meðan saxaði ég chillíið og jalapenoið,
tómatana, skar hvítlaukinn í sneiðar og
sömuleiðis rauðlaukinn. 

Skar hitt mangóið í bita líka. 

Skellti þessu svo öllu saman út í pottinn ...

Ásamt kóriander fræjunum, sykri,
sinnepsfræjunum og lárviðarlaufum.
Hrærði öllu saman og leyfði að 
sjóða í um fimm mínútur.

 Tók þá pottinn
af hitanum og leyfði þessu að kólna.
Tók þá til hliðar það sem ég vildi nota
strax og setti restina í krukku. Þetta 
geymist í ískáp í um 2 mánuði. 

Þá var bara að gera sítrónumajónesið.
Setti majónes í skál, tók hálfa sítrónu 
og raspaði og kreisti safann úr, 
kreisti safa úr limeinu, setti worcestershire
og tabasosósurnar út í, ásamt chillíduftinu
og ólífuolíu.

 Blandaði öllu vel saman. 

Þá var bara að lokum að steikja kjúklinginn
upp úr ólífuolíu á pönnu. 

Tók hálft baguette brauð og skar í tvennt.
Smurði sítrónumajónesi á brauðið.

Setti grænkál og annan helminginn
og tvo kjúklingastrimla.

Setti svo góðan slatta af súrsuðu mangó
ofan á kjúklinginn.  

Svo var bara að loka samlokunni og njóta!

Það má alveg óhikað mæla með þessu. Sýran af majónesinu og mangóinu koma alveg svakalega vel saman með kjúklingnum og mynda bragðsprengju sem sannarlega er ánægjuleg.

Meira síðar.

Ummæli