Fléttubrauð (Challah)

Ég er svo heppin að vera í alveg hreint ferlega skemmtilegum matarklúbb hérna á Akureyri. Í hvert skipti sem við hittumst er eitthvað ólíkt þema sem við þurfum að elda eftir. Síðast þegar við hittumst var Biblíuþema. Ég var með forréttinn og gerði virkilega skemmtilega linsubaunasúpu sem ég tók því miður ekki myndir af - en mun örugglega gera aftur seinna og deili þá með ykkur :)  Það var auðvitað nauðsynlegt að hafa gott brauð með og fannst augljóst að gera challah brauð sem þið getið lesið um til dæmis hér.

Uppskriftin var eftirfarandi ... 
2 tsk þurrger
2 dl volgt vatn
8-9 dl hveiti
1/2 dl sykur
2 tsk salt
2 egg
1 eggjarauða
1 eggjahvíta
1/2 dl matarolía

Setti vatnið í litla skál og dreifði gerinu
yfir vatnið ásamt smá klípu af sykri.
Leyfði þessu að standa meðan ég tók til
þurrefnin og eggin. Á þeim tímapunkti 
var blandan farin að freyða svolítið 
sem er merki um að gerið sé farið að virkjast.

Tók svo fram stóra skál og blandaði þar saman
þurrefnunum; hveiti, sykur og salt ...

... ásamt eggjunum tveimur og eggjarauðunni. 
Notaði trésleif til að blanda þessu aðeins saman. 

Bætti svo vatninu og gerinu saman við og
blandaði vel saman og byrjaði að hnoða. 
Munið að bæta við vatni og hveiti eftir þörfum.  

Þegar deigið var hnoðað og fínt (eftir 5-6 mínútur) 
þá var bara að koma því fyrir í skál og leggja klút yfir.

Leyfði því að hefast á hlýjum stað í 
um 2 klukkustundir.

Að því loknu þá skipti ég deiginu upp 
í þrjá álíka búta. 

Notaði þá til að búa til þrjár lengjur ... 

sem ég fléttaði svo saman. 

Lagði brauðið á ofnplötu og setti klút 
yfir og leyfði að hefast aftur í um það
bil klukkustund. Tók þá eggjahvítuna
sem út af stóð og setti í litla skál ásamt
nokkrum dropum af vatni. Notaði 
gaffal til að hræra saman og svo 
pensil til að pensla brauðið með 
eggjahvítunni. 


Svo var bara að skella brauðinu inn í
180°C heitan ofninn í um 30 mínútur
og út kom þessi líka skínandi fallegi
brauðhleifur. Ég viðurkenni að ég er 
alltaf pinku stressuð að brauð sé ekki
fullbakað en það er ágæt regla að taka 
það upp og banka í botninn á því
og ef það kemur einskonar holhljóð
þá eru allar líkur á að brauðið sé tilbúið.

Jú, þetta kom líka svona vel út - brauðið
fullbakað og smakkaðist vel með 
linsubaunasúpunni. 

Mæli alveg óhikað með þessu brauði. Það er bragðgott og áferðin er góð sömuleiðis. Þetta tekur alveg smá tíma með tímanum sem fer í hefinguna en það er alveg þess virði. Mæli með að gera eins og ég að gera deigið um morguninn og leyfa að hefast þangað til seinni partinn (um tveimur tímum áður en nota á brauðið). Þannig er þetta ekki alveg jafn mikið stress :) 

Meira síðar.

Ummæli