Ítalskur nautapottréttur sem gleður bæði maga og hjarta

Það er fátt betra á köldum vetrarkvöldum en bragðgóður pottréttur til að hlýja manni frá hjartarótum. Ég skellti í einn slíkan með nautakjöti í gærkvöldi og það er eitthvað svo ótrúlega fallegt við mat sem að smakkast einfaldlega góður. Oft eru það þessi einföldu, hefðbundnu brögð sem gleðja mann mest.

Þessi pottréttur er yndislega einfaldur og tiltölulega fá innihaldsefni og ég vona að hann gleðji ykkur jafn mikið og hann gladdi mig í gær.

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 4-5
750 gr nautakjöt, notaði innlæri og skar í bita
3 dósir niðursoðnir tómatar, ein af þeim var með basilíku og oreganó
1-2 matskeiðar tómatpúrra
2 sellerírif
1 poki fersk steinselja
1/4 tsk oreganó
1/4 tsk timijan
2 msk ólífuolía
Salt og pipar
4 tsk smjör
1/2 perluhvítlaukur (þessi sem skiptist ekki í geira) eða 2-3 hvítlauksgeirar
1 dl hvítvín
1 tsk rósmarín
Brauð - ég notaði einfaldlega snittubrauð, en líka gott að vera einfaldlega með ristað brauð

Saxaði steinseljuna og selleríið. 
Tók fram djúpa pönnu, setti olíuna,
tómatana og tómatpúrruna, oreganó
og timijanið í pönnuna og blandaði 
öllu vel saman, ásamt salt og pipar.

Lét suðuna koma upp og leyfði þessu
að malla í um hálftíma, eða þar til
selleríið var orðið mjúkt.

Svo var bara að skella töfrasprotanum
í sósuna og hakka þetta allt saman. 
Það má auðvitað líka gera með því að
hella sósunni í matvinnsluvél og hakka.

Tók fram stóran pott og bræddi smjörið,
setti kjötið sem ég hafði skorið í bita 
út í og brúnaði. 

Á meðan kjötið var að brúnast hafði ég til 
og saxaði hvítlaukinn.

Bætti hvítlauknum svo út í pottinn
og steikti með kjötinu í smá stund.
Afsakið móðuna á myndinni :-)
Það var óþarflega mikið vatn sem kom
úr kjötinu (óþolandi!!) þannig að ég
hellti því að mestu af áður en ég
hellti hvítvíninu út á kjötið.
Leyfði því að sjóða í sirka 10 mínútur.

Hellti þá tómatsósunni út í potinn ásamt
rósmaríninu. Blandaði öllu vel saman og 
leyfði þessu að malla í lokuðum potti við 
lágan til meðalhita í rúmlega klukkustund. 

Svo var bara að bera þetta fram
og njóta :-)

Þetta var, eins og áður hefur komið fram, virkilega bragðgott og orðið sem kemur einna helst upp í hugann: ekta! Í stað þess að nota hrísgrjón eins og oft er gert með pottréttum bar ég einfaldlega fram heil snittubrauð sem við rifum niður til að njóta með réttinum, en einnig hefði verið gott að hafa með t.d. ristað brauð og hugsanlega pasta eins og t.d. tagliatelle.  

Meira síðar.

Ummæli