Búrbon kjúklingur - algert góðgæti!

Ég fékk góðar vinkonur sem voru í heimsókn á Akureyri í mat um daginn. Ég var frekar seint á ferðinni og langaði þess vegna að gera eitthvað tiltölulega fljótlegt, en samt eitthvað sem myndi smakkast vel með smá hvítvínsdreitli, já eða öli. Eftir smá umhugsun ákvað ég að prófa að gera búrbon kjúkling, sem er nokkuð þekkt uppskrift af asískum veitingahúsum og er nefnd eftir Bourbon stræti í New Orleans.

Uppskriftin var yndislega einföld og þægileg og tók í raun merkilega lítinn tíma að gera. Niðurstaðan var svo alveg ferlega bragðgóður kjúklingaréttur sem við vorum að narta í það sem eftirlifði kvölds.

3 kjúklingabringur
1 dl soyjasósa
2-3 msk worchestershiresósa
~1 cm ferskt engifer
3 hvítlauksgeirar
1 tsk hvítlaukssalt
1 tsk lauksalt
1 tsk reykt paprika
2-3 þurrkuð chillí
1/2 bolli búrbon (t.d. Jim Bean)
1/4 bolli hvítvín
1 msk eplaedik
1 dl púðursykur
1 maízanamjöl
2 pokar hrísgrjón




Byrjaði á því að gera marineringuna,
setti öll hráefnin nema kjúklinginn og
maizanamjölið í skál.

Blandaði öllu vel og vandlega saman
þar til sykurinn var farinn að leysast upp.

Skar bringurnar niður í bita og blandaði
vel saman við marineringuna. Leyfði
kjúklingnum að liggja í marineringunni 
í sirka klukkustund, en því lengur því betra.

Veiddi svo kjúklinginn upp úr marineringunni 
og steikti á pönnu. Þegar kjúklingurinn var að verða
steiktur í gegn, hellti ég marineringunni út á pönnuna
og sauð með kjúklingnum í sirka 10 mínútur. 

Eftir að hafa fullvissað mig um að 
kjúklingurinn væri tilbúinn, bætti ég smá
maízanamjöli út í og sauð aðeins lengur
eða þar til sósan var farin að þykkna aðeins,
þó ekki of mikið því ég vildi geta notað
sósuna út á hrísgrjónin sem ég bar fram með.

Eins og áður sagði þá var þetta hrikalega bragðgott, sætt en samt sterkt. Engiferbragðið kom vel í gegn, en án þess þó að vera yfirgnæfandi. Þetta verður alveg örugglega gert aftur á þessu heimili :)

Meira síðar.

Ummæli