Kjúklinganúðlur með hnetusósu

Þá er kominn 7. janúar 2015 og ekki seinna vænna að hefjast handa, en eitt af áramótaheitum ársins var að byrja aftur að blogga. Ég hætti svo sem aldrei formlega, en það var mikið um að vera hjá mér í öðrum hlutum lífsins og ég hreinlega gaf mér aldrei tíma til að skrifa hér inn. En nú verður breyting á og ég kem hér af fullum krafti með nýju ári :)

Fyrsta uppskriftin er einföld, góð og þægileg, en þarf alveg að gera ráð fyrir smá tíma, aðallega í að marenera kjúklinginn - restin tekur hins vegar mjög fljótt af, 10 mínútur í mesta lagi. Þannig væri mjög sniðugt að henda kjúklingnum í marerneringuna jafnvel kvöldið áður, eða gera eins og ég gerði - skella honum í mareneringuna og hafa á borðinu í u.þ.b. hálftíma, en auðvitað verður hann betri eftir því sem hann fær að liggja lengur.

Uppskriftin var eftirfarandi ...
Marenering 
2 msk worcestershire sósa
Limesafi úr 1/2 lime
1-2 sítrónugrös, ég notaði þurrkað sítrónugras 1 msk
1-2 msk ljóst sýróp (ég notaði 1 msk)
1 msk sojasósa
1-2 msk saxað ferskt engifer
2 þurrkuð chillí
4 hvítlauksgeirar

400 gr kjúklingalundir eða 2 kjúklingabringur
1/2 rauð paprika, skorin í þunnar stuttar sneiðar
250-350 gr núðlur 

Hnetusósa
3 msk hnetusmjör
1/4-1/2 bolli kókosmjólk (meira eftir smekk) 
2 tsk worcestershire sósa
1-2 þurrkuð chillí eða ef þið eigið góða chillísósu 
1 msk limesafi
1 msk ljóst sýróp

Byrjaði á að útbúa mareneringuna í djúpu fati,
setti einfaldlega allt saman 
og hrærði saman með gaffli

Svo var bara að skera kjúklinginn í bita
og blanda vel saman við mareneringuna
og láta bíða. Ég lét þetta standa á borði
í hálftíma áður en ég skellti á pönnuna.
Æskilegast hefði verið að setja plastfilmu
yfir og inn í ískáp og geyma í a.m.k. 2 tíma.

Á meðan kjúklingurinn saug í sig mareneringuna 
bjó ég til hnetusósuna. Skellti innihaldsefnunum 
saman í litla skál og hrærði saman með gaffli, gæti
eiginlega ekki verið þægilegra. Ég smakkaði hana
svo aðeins til, bætti við smá kókosmjólk eftir smekk
til að hnetusmjörið væri ekki alltof yfirgnæfandi,
bætti líka við smá chillí til að fá aðeins meira "kick".


Svo var bara að skella smá olíu á pönnu og 
steikja kjúklinginn. Þegar kjúklingurinn var að 
verða tilbúinn bætti ég paprikunni út á. Tek fram
að mér fannst bitarnir full fautalegir hjá mér,
myndi frekar sneiða í þynnri sneiðar/bita næst og 
steikti í 2-3 mínútur, þannig að þær voru heitar
en ekki orðnar neitt alltof mjúkar.  
 
Skellti svo núðlunum í pott, eftir að hafa
skolað þær aðeins í vaskinum. þetta var
sirka helmingurinn af því sem var í 
pokanum og reyndist fullmikið. 
Kosturinn við að nota núðlur frekar 
en t.d. spagettí er hversu yndislega 
fljótlegt er að sjóða þær, eða aðeins 
3 mínútur í pottinum. 

Þremur mínútum síðar var bara að taka núðlurnar
úr pottinum og í stóra skál, hella hnetusósunni yfir
og blanda saman við núðlurnar.

Bætti svo kjúklingnum og paprikunni saman við. 

Að lokum var svo bara að njóta.

Þetta reyndist vera hinn ágætasti réttur, léttur og virkilega bragðgóður. Ég mun alveg örugglega gera hann aftur seinna, mun þá reyndar örugglega bæta við ferskum kóriander - held að það myndi algerlega setja punktinn yfir i-ið. Ekki verra að hefja nýtt bloggár á nýjum uppáhaldsrétt :)

Óska ykkur annars öllum gleðilegs nýs árs og hlakka til að eiga góðar matarstundir með ykkur á árinu!

Meira síðar.

Ummæli