Bókaklúbbsbúðingurinn

Ég bauð bókaklúbbnum heim í gærkvöldi og nýtti auðvitað tækifærið til að prófa nýjar uppskriftir. Sumar reyndust vel aðrar ... tja, við skulum segja að ég hafi lært af reynslunni = ekki henda dóti á pönnu og gera eitthvað annað en að smakka til og krydda á meðan.

Eitt af því sem stelpurnar fengu að prófa í gær var kakóbúðingur undir mexíkóskum áhrifum og reyndist svo vel að ég fékk sérstakt leyfi til að kalla hann bókaklúbbsbúðinginn, ekki slæm meðmæli það!

Það skemmdi svo ekki fyrir að þetta var alltaf því vandræðalega auðvelt í framkvæmd og yndislega fljótlegt. Fór reyndar að hugsa í gær af hverju við værum ekki duglegari að gera búðinga, þeir eru einfaldir, fljótlegir (10-15 mín) og nánast ómögulegt að klúðra þeim. Það er meira að segja hægt að gera þá daginn áður ef þannig liggur á manni, sem er alltaf ákveðinn kostur.

Innihaldsefnin í bókaklúbbsbúðingnum voru eftirfarandi ... dugar í 7-9 lítil form.
1 1/2 bolli sykur
3/4 bolli kakó
6 msk hveiti (eða maízanamjöl)
1 tsk salt
1 1/2 tsk kanill
1 1/2 tsk chilli
3 egg
700 ml matreiðslurjómi
2-3 msk smjör
3 tsk vanilludropar

Tók fram meðalstóran pott og skellti
ofan í hann sykrinum, kakóinu, hveiti,
saltinu, kanillinum, chillíinu og eggjunum.
Blandaði öllu saman og kveikti undir. 

Bætti svo matreiðslurjómanum smátt 
og smátt saman við. Það er alveg óhætt
að bæta við eða minnka rjómann 
eftir smekk.

Svo var bara að hræra reglulega og leyfa suðunni 
að koma upp. Athugið að eftir að þetta byrjar að hitna
þarf að hræra nokkuð stöðugt svo að það festist
ekki bara allt við botninn. Þegar suðan er komin upp
er bara að halda áfram að hræra og leyfa að sjóða
í sirka 1-2 mínútur eða þar til búðingurinn er 
byrjaður að þykkna svolítið.

Þá var bara að slökkva undir pottinum og bæta
smjörinu og vanilludropunum út í búðinginn.
Hræra saman við þar til smjörið hefur bráðnað.

Að lokum var bara að skammta búðingnum í formin
og þaðan inn í ísskáp þar til stelpurnar mættu í klúbb.

Bar þetta svo fram í formunum ásamt óþeyttum rjóma, smakkaðist yndislega með kaffinu og óhætt að mæla með. Einfalt, fljótlegt, bragðgott og þægilegt!

Meira síðar.

Ummæli