20 mínútna lambalæri með ítölskum kartöflum

Ertu að fá gesti í mat og langar að bjóða upp á hið fullkomna lambalæri en hefur ekki mikinn tíma til að elda því þig langar miklu frekar að skella þér á skíði heldur en að standa og þræla í eldhúsinu? Þá er þetta uppskrift fyrir þig!

Ég átti fremur stórt lambalæri í frystinum og átti von á 8 manns í mat. Það var því augljóst hvað yrði í matinn það kvöldið. Ég hef síðustu árin eldað lambalæri þannig að það sé nánast mauksoðið, enda ekki neitt sérstaklega hrifin af lambakjöti og allt gert til að fela lambakjötsbragðið. Það verður hins vegar til þess að áferðin á kjötinu verður ekki jafn skemmtileg og hún gæti verið. Þannig ákvað ég að breyta aðeins til í þetta skiptið og rakst á virkilega skemmtilega aðferð til að elda lambalæri í The Essential New York Times Cookbook og ég hugsa að ég muni nota þessu aðferð í framtíðinni til að elda lambalæri. Galdurinn felst í því að skella lærinu á ofnplötu með kryddum og öðru slíku eftir smekk, inn í ofn við 250-260°C í 20 mínútur. Svo er bara að slökkva á ofninum og geyma lærið inn í ofninum í um 3 klst. Ekki opna ofninn heldur bara leyfa lærinu að jafna sig í rólegheitunum. Þannig er hægt að henda lærinu inn í ofninn á meðan skíðaútbúnaðurinn er tekinn til, slökkva á ofninum þegar haldið er upp í fjall og voilá, fullkomið lambalæri tilbúið fyrir kvöldmatinn.

Uppskriftin var eftirfarandi ... dugði fyrir 9 manns
2,7 kg lambalæri
1-2 msk timijan
1-2 msk rósmarín
Gróft salt 
Pipar
5cl Martini Rosso eða vermúð
2 dl hvítvín
6 hvítlauksgeirar 
Ólífuolía

Sósan
Soðið úr ofnplötunni
1 laukur
Salt og pipar
Hugsanlega smá grænmetis eða lambateningur
2-3 dl vatn, ef vill
1 msk hvítvínsedik

Kartöflurnar
1 sæt kartafla
5-8 meðalstórar kartöflur
1 msk oreganó
1/2 msk timijan 
Salt og pipar
1/2 dl ólífuolía

Byrjaði á að hreinsa mestu fituna af lærinu, hreinsaði
hvítlaukinn og skar geirana í tvennt og gerði svo
lítil göt hér og þar um lærið og stakk hvítlauksgeirunum
inn í götin. Hellti svo ólífuolíu yfir lærið notaði fingurna 
til að dreifa olíunni um allt lærið. Svo var bara að krydda
lærið með rósmarín, timjan (notaði blóðberg frá síðasta sumri)
og salt og pipar. Var með lærið á djúpri ofnplötu
og hellti hvítvíni og martini í botninn.
Skellti svo lærinu inn í ofninn við sem áður segir, 260°C
og hafði það þar inni í 20 mínútur, skemur ef þið viljið
minna steikt læri (15 mín) og lengur ef þið viljið betur
steikt læri (25 mínútur). Svo að tuttugu mínútum liðnum
slökkti ég á ofninum skyldi lærið bara eftir inni áhyggjulaus
í þrjár klukkustundir.

Þegar lærið kom út úr ofninum vafði ég það inn í álpappír
og svo inn í handklæði til að hitinn myndi haldast sem lengst.

Eldunin var allt að því fullkomin. 
Fallega brúnt ysta lagið og bleikt
innsta lagið, án þess að vera blóðugt.
Enginn hitamælir og ekkert vesen.

Ég hellti soðinu úr ofnplötunni í pott,
 bætti smá vatni við, sem og lauknum,
vatninu, edikinu og setti smá tening.
Leyfði þessu svo aðeins að sjóða. Setti
1 tsk af maízanamjöli saman við en 
ég vildi ekki þykkja hana of mikið.

Skar karftöflurnar í grófa bita, setti þær
í ofnfast fat, dreifði kryddunum yfir og
hellti ólífuolíunni yfir og blandaði öllu
vel og vandlega saman. Setti inn í ofn
við 200°C í um hálftíma eða þangað til
að kartöflurnar voru eldaðar.

Svo var bara að njóta :-)

Þetta reyndist vera virkilega gott og alveg óhætt að mæla með þessari eldunaraðferð fyrir lambalæri. Þægileg og í raun fljótleg leið til að elda hið fullkomna lambalæri, algerlega áhyggjulaust.

Meira síðar.

Ummæli