Parmesan brauðstangir - Beikonvafðar ostastangir með púðursykri og chilli

Eins og venjulega þegar kemur að mér að halda saumaklúbb þá reyni ég að safna saman skemmtilegum uppskriftum sem mig langar að prófa og fæ að nota stelpurnar sem tilraunadýr :)  Saumaklúbburinn á sunnudaginn var engin undantekning en þar voru nokkrar uppskriftir prufukeyrðar sem munu detta hérna inn í dag og á næstu dögum :)

Fyrsta uppskriftin sem mig langar að deila með ykkur eru parmesan brauðstangir sem eru hrikalega góðar, en ég tók þetta svo aðeins lengra og vafði hluta af þeim með beikoni og rúllaði upp úr púðursykri og chillidufti.

Uppskriftin var eftirfarandi:
Brauðstangir
280 ml volgt vatn
2-3 tsk þurrger
1 tsk sykur
500 gr hveiti
1 msk ólífuolía
5 msk rifinn parmesanostur (+smá auka til að dreifa yfir seinna)
1 tsk timijan
1 tsk majoram
1 tsk oreganó
2 hvítlauksgeirar
1-2 msk jalapeno saxað

Beikonvafningurinn
Beikon eins og fjöldi ostastanga
1 dl púðursykur
2-3 msk chilliduft

Byrjaði á að setja vatn, ger og sykur
saman í skál.

Bætti svo hálfum dl af hveiti saman við 
og hrærði saman, leyfði svo að standa
í sirka 5 mínútur. Bætti svo sirka 
helmingnum af hveitinu út í og blandaði
vel saman. 

Reif niður parmesanostinn ...

saxaði jalapenoið ...

bætti út í deigið ásamt kryddunum ...

og blandaði vel saman og bætti svo 
restinni af hveitinu út í.

Hnoðaði deiginu vel og vandlega áður
en ég skellti því í skál með loki og leyfði
því að hefast í um það bil 20 mínútur. 

Svo var bara að kýla deigið niður og 
hnoða aðeins upp áður en tími var til
að fletja deigið út. 

Flati út deigið, pennslaði með egginu sem ég hafði þeytt 
saman með gaffli og dreifði smá parmesanosti, oregano,
timijan yfir allt. Skar svo í tvennt og svo sirka 1 1/2 cm 
ræmur sem ég braut saman í tvennt og rúllaði upp til
að mynda brauðstangir eins og má sjá á næstu mynd.

Rúllaði stöngunum upp og skellti svo inn í ofn við 
190°C í um 20 mínútur.


Tuttugu mínútum síðar komu svo út úr 
ofninum þessar líka girnilegu ostastangir.


Til að hafa smá tilbreytni þá ákvað ég að taka hluta af 
ostastöngunum og vefja með beikon og velta upp úr 
púðursykri og chilli. Ég setti á disk púðursykur 
og chilliduft og blandaði vel saman með gafli.
Vafði svo beikoni utan um ostastöng og velti upp úr
púðursykursblöndunni.

Skellti þeim svo á grind og setti ofnskúffu klædda 
álpappír undir og inn í ofn við 180°C í 25-30 mínútur.

Út komu þessar líka flottu ostastangir.

Þetta var virkilega skemmtilegt að gera og raunar miklu auðveldara en á hafði einhvernveginn búist við. Ostastangirnar sjálfar voru hrikalega góðar, en ég bar þær fram með chilísinnepi frá Nicolas Vahé sem var hrikalega gott - óhætt að mæla með því :) 

Meira síðar.

Ummæli