Smjörhnetufyllt ravioli

Það er alltaf gaman að setja saman matseðil fyrir veisluborðið, sérstaklega fyrir páskaveisluborðið :)  Í þetta skiptið varð nautasteik fyrir valinu í aðalrétt (kemur inn fljótlega), en forrétturinn, sem er jafnvel mikilvægari, var smjörhnetufyllt ravioli, létt og gott til að vega upp á móti nautinu.

Ég gerði auðvitað pastað frá grunni (ekki láta það hræða ykkur) og þetta heppnaðist eiginlega fáránlega vel, þó ég segi sjálf frá :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ... 
Pastadeig
1/2 smjörhneta
1/2 tsk rósmarín
Salt og pipar
1/2 tsk timijan
1/2 tsk salvía
1/8-1/4 tsk múskat
9 msk smjör
2 skallottulaukar
3 msk rjómi
3 msk parmesanostur
1 msk þurrkuð salvía
1 msk steinselja

Byrjaði á að hreinsa smjörhnetuna og skera í bita svo að elduninn
tæki skemmri tíma. Skellti á ofnskúffu með smá matarolíu, 
salt og pipar, timijan og rósmarín. Skallti inn í 220°C heitan ofn í 
um það bil 15-20 mínútur eða þar til smjörhnetan var orðin mjúk
og viðráðanleg. Á meðan smjörhnetan var í ofninum hnoðaði ég
pastadeigið og leyfði því að hvílast örlítið.

Þegar smjörhnetan var komin úr ofninum notaði ég einfaldlega gaffal 
til að merja smjörhnetuna.

Setti smjörklípu í pott og setti saxaðan skallottulaukinn í og steikti
létt ...

áður en ég bætti smjörhnetumaukinu út í og
blandaði vel saman við laukinn.

Bætti svo rjómanum, salt og pipar saman við
og blandaði vel saman. Leyfði að hitna í gegn,
eða í sirka 2 mínútur við meðalhita.

Bætti þá parmesanostinum og múskati saman við
og blandaði vel saman.

Svo var bara að fletja út deigið,
setja um það bil teskeið af fyllingu á,
bleytti svo endana með köldu vatni og innsiglaði
þannig fyllinguna inn í pastanu. Ég mæli með að 
noa hníf eða kleinujárn til að skera umframpastað
í burtu. Ég gerði það ekki og það reyndist full mikið
af pasta meðfram fyllingunni.

Svo var bara að sjóða pastað í um 2-4 mínútur.

Á meðan pastað sauð skelli ég smjöri í pott ásamt
þurrkaðri salvíu. Ég hefði gjarnan viljað nota ferska
en slíkt var því miður ekki til í verslunum þann daginn.
Leyfði smjörinu að malla þar til það var farið að brúnast.

Smjörsósa tilbúin.

Pasta á disk ...


og svo var bara að njóta.

Þetta var einstaklega bragðgott og alveg óhætt að mæla með, smjörsósan er ruglgóð en það kemur alveg ótrúlega gott allt að því hnetubragð af smjörinu þegar það er hitað vel. Mæli eindregið með þessum, sérstaklega þegar þið viljið gera vel við ykkur - þetta er sannarlega vesenis virði og tekur mun styttri tíma en maður gæti haldið!

Meira síðar.

Ummæli