Hnetusmjörskaramelludásemd

Jæja, þetta þýðir víst ekki lengur. Er búin að vera hundlöt á nýju ári, en nú er sólin farin að skína og daginn tekinn að lengja og engin afsökun lengur fyrir að blogga ekki.

Eftir mikla umhugsun um hvað væri nú viðeigandi að byrja á svona rétt fyrir páska þá lenti ég á þessari bombu. Ég gerði hana fyrir góða vini um daginn og vá, hún er vægast sagt ÆÐISLEG! Það sem er enn betra er að það er mjög lítill eiginlegur bakstur í ofni, en á móti kemur að það þarf að kæla hana nokkrum sinnum í ferlinu. Þannig er þetta ekta kaka til að gera meðan maður gerir eitthvað annað, því hvert og eitt skref er í sjálfu sér fljótlegt, en það er alltaf smá bið á milli. Lokaafurðin er hins vegar svo fáránlega góð að það er alveg bannað að láta biðina fæla sig í burtu frá því að prófa þessa!

Uppskriftin er eftirfarandi:
Botninn
~125 gr súkkulaði-ískex
~125 gr LU karamellu/kanilkex
1 msk sykur
113 gr smjör

Karamellusósan
2 1/2 dl sykur
1/2 dl vatn
2 dl rjómi
80 ml sýrður rjómi (10%)
2 dl salthnetur

Hnetusmjörsmúsin
225 gr rjómaostur
1 dl flórsykur
2 1/2 dl hnetusmjör
1 tsk vanilludropar
2 dl rjómi
Saltklípa

Súkkulaðikremið
100 gr suðusúkkulaði
100 gr 70% súkkulaði
2 dl rjómi

Byrjaði á að setja kexið í matvinnsluvél
og mala það þar til það var orðið nokkuð
fínt, en þó enn gróf korn inn á milli líka.
Setti í skál ásamt smjörinu og sykrinum
og blandaði vel saman með sleif.

Tók fram pæformið mitt og setti kexblönduna
í og þrýsti vel út í alla kanta og upp á brúnina.
skellti þessu inn í ofn við 180°C í 8-10 mínútur.

Á meðan botninn var í ofninum var tilvalið
að byrja á karamellunni. Setti sykurinn og
vatnið saman í pott og leyfði suðunni að
koma upp og leyfði að sjóða ...

þar til að karamellan var orðin ljósbrún,
en þá var kominn tími til að taka pottinn 
af hitanum og hella rjómanum varlega 
saman við karamelluna. Setti pottinn svo
aftur á hitann og hrærði varlega saman
þangað til að rjóminn og karamellan voru
orðin eitt. 

Þá var bara að slökkva á hitanum og bæta 
rjómaostinum saman við.

Það var alveg smá þolinmæðisverk en 
hafðist að lokum og þá var bara að skella
pottinum út á svalir og leyfa karamellunni 
að kólna í sirka hálftíma - 40 mínútur.
Passið samt að kæla hana ekki of mikið,
við viljum geta unnið með hana áfram :)

Þegar karamellan var köld þá bara að 
bæta salthnetunum saman við og blanda
vel saman.

Hellti svo karamellunni í botninn og setti 
til hliðar á meðan hnetusmjörsmúsinn varð til.

Byrjum á því að hræra saman rjómaostinn
og flórsykurinn. Þegar það hefur myndað 
létta og góða blöndu er tími til að bæta 
hnetusmjörinu, saltinu og vanilludropunum 
saman við og hræra vel saman.
Í annarri skál er svo að þeyta rjóma, 
en ég gleymdi því miður að taka mynd 
af því skrefi :)

Svo er bara að blanda rjómanum og 
hnetusmjörsblöndunni varlega saman,
best er að taka bara hluta af rjómanum
í einu og blanda vel saman við áður en 
meiri rjóma er bætt við. Ég setti rjómann
saman við í þremur hlutum.

Svo var bara að setja hnetusmjörsmúsina ofan á 
karamelluna - mæli með að gera það varlega svo að
karamellan flæði ekki upp úr :) 
Setti þetta svo inn í ískáp þar til að tími var kominn til
að njóta - eða í um það bil klukkustund.
Setti þá súkkulaðið í hitaþolna skál, setti rjómann í pott
og hitaði upp að suðu. Hellti þá rjómanum yfir súkkulaðið
og hrærði saman þar til súkkulaðið bráðnaði. 
Hellti svo þessari súkkulaðirjómablöndu yfir kökuna.

Svo var bara að lokum að njóta,
sem ég vona að þið gerið líka :)

Mikið er gott að vera byrjuð aftur!

Meira síðar.

Ummæli