Hamborgarasósa úr grískri jógúrt og fetaost

Þessi er fullkomin fyrir síðasta dag vetrar þegar grilltíðin fer að taka við. Málið er annars að þessa dagana er ég með algert óþol fyrir mæjónessósum, sérstaklega tilbúnum sósum eins og pítusósu, hamborgarasósu og öðrum slíkum sósum úr brúsum. Það þýðir að ég þurfti aðeins að hugsa þetta upp á nýtt þegar ég skellti í hamborgara í vikunni.

Mig langaði í sósu sem væri fersk og bragðgóð og auðvitað færi vel með hamborgurunum.

Niðurstaðan varð þessi:
2 dl grísk jógúrt
2-3 msk fetaostur í kryddlegi
1 stór hvítlauksgeiri
2 msk sítrónusafi
Salt
Pipar
Klípa af cayenne pipar

Skellti grískri jógúrt í skál,

Bætti sítrónusafa og fetaosti út í,

Skellti svo hvítlauknum, salti, pipar og 
cayennepipar út í,

og hrærði öllu saman :-)

Það er líklega ágætt að gera hana kannski hálftíma áður en á að njóta til að leyfa bragðinu aðeins að taka sig, en það er þó alls ekki nauðsynlegt. Ég sjálf gerði hana rétt áður en við borðuðum og það tók u.þ.b. 2 mínútur - þar af tók lengastan tíma tók að opna fetaostkrukkuna!

Mæli óhikað með þessari, létt og hrikalega bragðgóð.

Meira síðar.

Ummæli