Mulligatawny eða Piparvatnsúpa

Það er líklega best á að hefja þessa uppskrift á að segja ykkur hvað hún er svakalega góð, því í kjölfarið verð ég eiginlega að viðurkenna að hún er alveg pinku vesen að gera :-) Það var samt sem áður skemmtilegt vesen og ég hafði svakalega gaman af því að gera hana og verðlaunin í lokin voru eins og áður kom fram, algerlega vesenisins virði!

Upprunalega uppskriftin kemur frá Craig Claiborne en hún þykir samt vera gott dæmi um uppskrift frá nýlendutímabili Breta þar sem bresk áhrif og áhrif frá nýlendunum koma saman. Uppskriftin breyttist aðeins í eldun, t.a.m. notaði ég kókosmjólk í stað rjóma o.s.frv.

Uppskriftin var eftirfarandi ...
3 kg kjúklingabringur (eða kjúklingabitar, eftir smekk)
1,2 l kjúklingasoð eða vatn
2 laukar, stungnir með 8 negulnöglum (4 í hvorn lauk)
4 sellerístilkar
2 gulrætur
2 lárviðarlauf
4 steinseljugreinar
Salt
28 piparkorn
1 kókoshneta (eða frosið kókoskjöt)
2 dósir kjúklingabaunir
8 msk smjör
1/2 dl hveiti
6 msk turmerik
2 tsk ferskt rifið engifer
2 tsk kóriander, malað
2 hvítlauksgeirar
Cayenne pipar
2 dósir kókosmjólk

Þá hófst vinnan ... skar niður kjúklingabringurnar og 
setti í stóran pott ásamt vatni og 2 tsk af kjúklingatening.

Hreinsaði laukinn og stakk negulnöglunum í.

Skellti lauknum og restinni af grænmetinu út í pottinn,
þ.e. selleríinu, gulrótunum, lárviðarlauf ...

steinseljunni, smá salti og piparkornunum.

Svo var bara að leyfa suðunni að koma upp og sjóða í 
um það bil 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn var eldaður.

Tók kjúklinginn upp úr pottinum og setti í fat og setti
álpappír yfir til að reyna að halda honum heitum.

Síaði svo soðið og setti til hliðar.

Þar sem ég hef alveg ógurlega gaman af því að brjóta
kókoshnetur og finnst þær alveg sérstaklega góðar þá
varð ég mér út um kókoshnetu í Samkaup og braut
hana í tvennt og hreinsaði kjötið innan úr.

Setti kókoshnetukjötið í matvinnsluvél ...

ásamt 4 dl af kjúklingasoðinu og hakkaði í spað.

Notaði svo fíngert sigti til að aðskilja kjötið frá vökvanum.

Setti vökvann svo aftur í matvinnsluvélina ásamt 
kjúklingabaununum og hakkaði þar til kjúklingabaunirnar
voru orðnar vel maukaðar saman við kókosmjólkina.

Bræddi svo smjör á pönnu og bætti út á hana hveitinu,
turmerik, engifer, kóriander, hvítlauk og cayennepipar.
Hrærði öllu saman með sleif og leyfði að hitna ...

þar til þetta var farið að vera þykkt og girnilegt.
Lækkaði hitann og bætti svo kókosmjólkurblöndunni 
út í smátt og smátt og hrærði vel þar til þetta var allt vel 
blandað saman. 

Setti þetta svo í pottinn og bætti kókosmjólkinni og  
kjúklingasoðinu út í, sem og kjúklingnum og leyfði 
suðunni að koma rólega. Ég setti svo aðeins meira vatn
og kókosmjólk því mér fannst ekki alveg nógu mikið vatn,
en bætti að sama skapi við smá turmerik og salti/pipar.
Bætti líka við smá ferskum kóriander.

Að lokum varð úr þessi líka ágæta súpa sem ég bar fram
með naanbrauði, sítrónubátum og svo er ágætt að hafa 
hrísgrjón líka - ef vill :-)

Þetta var eiginlega hrikalega góð súpa sló vægast sagt í gegn. Ég mun alveg örugglega gera þessa aftur, enda fáránlega bragðgóð og skemmtileg að njóta, sérstaklega í góðra vina hópi eins og við gerðum í júlí :-)

Meira síðar.

Ummæli