Belgísk súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Ég fékk beiðni frá vinkonu minni að reyna við Belgíska truffluköku og þar sem ég á alveg sérstaklega erfitt með að standast slíkar áskoranir þá skellti ég meira að segja í tvær ólíkar tegundir slíkrar köku. Þessi sem ég ætla að deila með ykkur í dag er mjög klassísk belgísk súkkulaðikaka og ég verð að viðurkenna að þetta er með betri súkkulaðikökum sem ég hef smakkað og mér fannst hún eiginlega betri en hin fræga franska súkkulaðikaka, einhvernveginn léttari og skemmtilegri.

Uppskriftin var ósköp einföld ...
Kakan
175 gr suðusúkkulaði
170 gr smjör
1 1/2 dl sykur
4 egg (þarf að skilja frá eggjahvítur og -rauður
1 1/5 dl hveiti

Kremið
1/2 dl smjör
3/4 dl flórsykur
125 gr suðusúkkulaði
3/4 dl rjómi

Byrjaði á að bræða súkkulaðið. Augljóslega á að gera 
það yfir vatnsbaði en ég er svo hræðilega löt stundum,
sérstaklega þegar ég er að elda/baka seint á kvöldin
að ég nennti ekki að standa í því, setti súkkulaðið bara
í pott og bræddi við mjög lágan hita og hrærði reglulega,
en það er alltaf hættan að ofhita súkkulaðið og þá missir
það gljáan og bragðið verður ekki jafn gott.
Setti súkkulaðið svo til hliðar og leyfði að kólna.

Setti svo í hrærivélarskálina smjörið ...

og sykurinn og þeytti saman. Á meðan skildi ég eggin að.

Bætti svo súkkulaðinu út í skálina ásamt 
eggjarauðunum og þeytti saman við smjörsykurinn.

Var strax farið að líta vel út :)
Setti deigið í aðra skál og hreinsaði þeytaraskálina ...

Því næst var komið að því að stífþeyta eggjahvíturnar.

Á meðan eggjahvíturnar þeyttust notaði ég tækifærið
og sigtaði hveitið saman við deigið og blandaði saman við.

Lofar góðu! 

Svo var bara að bæta eggjahvítunum smátt og smátt
saman við deigið og blanda varlega saman við.

Tók svo fram smellumót og smurði að innan,
setti deigið í og setti inn í ofn við 180°C.

Um 35 mínútum síðar var kakan tekin út úr ofninum og
leyft aðeins að jafna sig áður en formið var fjarlægt.

Kom kökunni svo fyrir á kökudisk (varð smá slys við
yfirfærsluna eins og sjá má).

Þá var að gera kremið. Bræddi líkt og áður 
suðusúkkulaði í potti við mjög lágan hita (elska
nýja gashelluborðið mitt btw).

Tók svo fram skál og þeytti saman smjörinu og 
flórsykrinum, og bætti svo rjómanum saman við.


Svo var bara að bæta súkkulaðinu út í sömuleiðis
og blanda vel saman.

Úr varð þetta líka dýrindis krem sem var mjög 
auðvelt að setja á kökuna ...

og dreifa úr þannig að útkoman varð þessi.

Aftur, þá segi ég - ein besta súkkulaðikaka sem ég hef smakkað um ævina sem sómir sér vel á hvaða veisluborði sem er! Mæli óhikað með henni.

Meira síðar.

Ummæli