Marineruð kengúra á veisluborðið





Um síðustu áramót var pælingin að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. Í aðalrétt var kalkúnabringa eins og áður hefur komið fram, en einhverra hluta vegna gleymdi ég alltaf að deila með ykkur forréttinum sem var reyndar alveg sérstaklega góður. Það er því lítið annað að gera en að skella þessu fram núna :-)

Í forrétt var sem sagt léttsteikt marineruð kengúra, marineruð með rósmarín og chillí, borin fram með hlynsýrópgljáðu rótargrænmeti. Hljómar vel ekki satt? :-)  Þó ótrúlegt megi vera þá fékk ég kengúrukjöt einfaldlega í Samkaup á Ísafirði. Það er frábært hvað það er oft skemmtilegt og fjölbreytt úrval af allskonar frosnu kjöti þarna og kemur oft á óvart hvað má finna og alls ekkert slæmt kjöt!

Nema hvað, eftir að hafa google-að töluvert af upplýsingum um kengúrukjöt og hvernig væri best að meðhöndla það þá datt ég niður á eftirfarandi uppskrift og reyndist hún mjög vel og dugði vel fyrir 5 manns.

600 gr kengúrukjöt
Ferskt rósmarín
5 stór rauð chillí
150 ml ólífuolía

1 Rófa
2 gulrætur
1 laukur
1-2 nípur
2 msk hlynsýróp
1-2 hvítlauksgeirar
Rósmarín
Salt og pipar


Skar niður chillí og saxaði rósmarínið 
og setti í fat ásamt ólífuolíu.

Setti kengúrukjötið út í og nuddaði það vel í mareneringunni.
Leyfði því svo að liggja í mareneringunni frá morgni og þar 
til tími var til að steikja kjötið.

Hitaði pönnuna þar til hún var orðin snarkheit og skellti
kjötinu á hana í örskamma stund, aðeins um 2-3 mínútur
á hvorri hlið.  

Tók kjötið svo af pönnunni og setti í eldfast mót og 
inn í 200°C heitan ofn í 10 mínútur. Tók kjötið svo út
og leyfði því að jafna sig undir álpappír í um 5 mínútur
áður en það var borið fram. 

Skar bringurnar svo í þunnar sneiðar og 
bar fram me ristaða grænmetinu sem því
miður gleymdist að taka mynd af ferlinu.

Rótargrænmetið var reyndar alveg sérstaklega einfalt, ég hreinsaði og skar grænmetið í ræmur, skellti í eldfast mót ásamt ólífuolíu, hlynsýrópi, salt og pipar og rósmarín og skellti inn í 200°C heitan ofn þangað til að grænmetið var orðið mjúkt. Athugið að það getur verið gott að hræra aðeins í því einstaka sinnum til að tryggja jafna eldun.

Já, kengúran kom sannarlega á óvart - kjötið var lungamjúkt og óhætt að mæla með þessu sem spennandi og öðruvísi og síðast en ekki síst bragðgóðum forrétti!

Meira síðar.

Ummæli