Loksins loksins byrjuð aftur með geggjuðum Oreo Brownies

Loksins, loksins, loksins get ég byrjað aftur að blogga. Ég hefði auðvitað átt að setja inn skilaboð hérna fyrir löngu en málið var sem sagt að ég var að taka eldhúsið hjá mér í gegn og var eldhúslaus í tvo mánuði :-o Hræðilegt! En í staðinn er ég líka komin með algerlega magnað eldhús með nýjum og flottum tækjum sem vonandi mun skila sér í enn flottara og skemmtilegra bloggi til ykkar! Öll heimilistækin eru ný, fékk mér gashelluborð og geggjaðan ofn frá Whirlpool sem þykist geta eldað fyrir mig, en ég er nú ekki enn alveg sannfærð um þann hluta ;-)  Eldhúsið sem sagt loksins komið í gagnið en þó er enn heilmikið eftir að gera, en planið er að birta fyrir og eftir myndir hérna á blogginu seinna í haust svona til að sýna ykkur hvað þetta er ótrúlega mikil breyting!

Þar sem ég er með nýjan ofn þá auðvitað varð ég að prófa hann, sjá hvernig virkaði og þá er lítið annað að gera en að skella í smá kökuboð. Fyrsta kakan úr kökuboðinu sem mig langar að deila með ykkur er algerlega geggjuð oreo brownies.

Uppskriftin 
225 gr smjör, mjúkt
4 dl sykur
4 egg
1 tsk vanilludropar
1 dl kakó
2 3/4 dl hveiti
1/2 tsk salt
2 pakkar oreo kex
2 dl rjómaostur
1 poki hjúpsúkkulaði

Byrjaði á að taka mjúkt smjör og skera niður í bita

Bætti svo sykrinum saman við og blandaði vel saman.

Svo var að bæta eggjunum út í og þeyta saman við.

Eins og mér finnst leiðinlegt að sigta þurrefnin,
 þá læt ég mig nú hafa það að sigta kakó enda búin 
að læra það af reynslunni að það er 
bara nokkuð mikilvægt.

Svo var að sigta hveitið svona fyrst 
maður var búinn að taka fram sigtið 

Svo var bara að blanda öllu vel saman, 
en gætið samt að því að ofhræra ekki.

Svo var bara að skella þessu í smurt form; 20x30 cm
og inn í ofn við 180°C í 20-25 mínútur. 
Passið að ofbaka ekki ... 
ég var með þetta 5 mínútur of lengi :)

Voilá, út kom þessi fína brownies. 
Þá var bara að leyfa þessu að kólna vel og vandlega.

Notaði svo hamar til að mala oreokexið og setti
ásamt rjómaostinum í skál. Notaði svo bara hendurnar
til að hnoða þessu vel og vandlega saman.

Svo var bara að skella þessu ofan á browniesið 
og dreifa vel út. 


Bræddi svo hjúpsúkkulaði ... 

og hellti yfir kökuna :-)

Þetta var virkilega góð kaka og óhætt allavega að mæla með henni fyrir alla oreo aðdáendur ... þið hin, það koma fleiri kökur inn í vikunni; vegansúkkulaðikaka og regnbogakaka!

Mikið er gott að vera byrjuð aftur!

Meira síðar.

Ummæli