Japanskt kvöld: Sushi

Það hlaut að koma að því að ég myndi láta undan þrýstingi og gera sushi. Eftir að Ólöf vinkona mín gaf mér uppskriftabók um daginn með japönskum uppskriftum var ljóst að ég hefði endanlega engin rök fyrir að skella ekki í japanska matargerð. Ekki misskilja mig, ég hef enga fordóma gagnvart japanskri matargerð. Raunar held ég að hún sé alveg sérstaklega góð - ein af þeim bestu í heiminum. Hins vegar byggir hún mikið á sjávarmeti og eins og margoft hefur komið fram þá er ég með fiskóþol og þar af leiðandi sækist ég nú ekkert í að elda sjávarrétti :-)  Það gleymist þó oft að það er svo miklu meira við japanska matargerð heldur en bara fiskur og sjávarréttir og ég varð alveg heilluð þegar ég fór að sökkva mér aðeins ofan í þessa einstöku matargerð.

Það er þó eðlilegt að byrja á því að deila með ykkur sushihluta matarboðsins, en í raun var þetta eitt stórt hlaðborð þar sem fór saman nautakjöt, sushi, gyoza og margt fleira. En byrjum á sushinu!

Uppskriftin endaði svona ...
Sushi hrísgrjón
9 dl sushi hrísgrjón (ég svindla því að þetta eru svo dýr hrísgrjón og nota grautarhrísgrjón í staðinn, sé engan mun enda líta þau eins út og klessast eins og á að gera)
750 ml vatn
1 dl hrísgrjónaedik
1/2 dl flórsykur
1/2 tsk salt

Sushi fylling
Regnbogasilungsflak
Krabbakjöt
Risarækja
Vorlaukur
Agúrka
Paprika
Þurrkuð þarablöð
Sesamfræ

Sushi meðlæti
Japönsk sojasósa
Wasabi
Súrsað engifer

Ég byrjaði á fyrst af öllu að sjóða hrísgrjónin enda þurfa þau að fá að kólna í rólegheitunum.

Skellti hrísgrjónunum og vatninu í pott og sauð eftir
öllum kúnstarinnar reglum. 

Á meðan hrísgrjónin suðu blandaði ég saman ediki og
flórsykri í litla skál.

Hrærði svo saman með gaffli.

Þegar hrísgrjónin voru soðin þá hellti ég þeim í skál
og hellti edikblöndunni yfir og notaði tréáhald
til að blanda saman, passið að hræra ekki á hefðbundinn
hátt heldur skerið í gegnum hrísgrjónin þannig að þau
brotni sem minnst upp.

Svo var að skera grænmetið, byrjaði á að kjarnhreinsa
agúrkuna ...

og skera hana í mjóra strimla ...

og skar svo strimlana í minni bita. Takið eftir að 
það var gengið alla leið í japanska þemanu og 
meira að segja hnífarnir voru japanskir ;)

Skar svo paprikuna og vorlaukinn líka í mjóa strimla.

Svo var að skera silunginn ... 

Svo var að rúlla þessu öllu upp.
Á þessum tímapunkti var ég farin að örvænta
aðeins að ég myndi ná að klára alla sex réttina,
 en þá mættu þessir snilldargestir mínir og þeir 
tóku einfaldlega að sér hlutverk sous-chef og 
rúlluðu þessu upp ... í bókstaflegri merkingu.
Nauðsynlegt er að vera með mottu til að rúlla upp
og fyrst er sett þurrkað sjávarfang, setja svo 
hrísgrjón og dreifa þeim yfir og raða svo
fyllingunni. Papriku, krabbakjöti og gúrku í
þessu tilfelli. 

Svo er bara að rúlla upp og skera í bita.

Setti líka risarækju á hrísgrjón.

Röðuðum saman grænmetisbitum
og rúlluðum upp með silungabitum.

Lítur vel út ekki satt. 

Rætt um bestu leiðina til að meðhöndla
hrísgrjónin. 






Sushirúllur tilbúin til niðurskurðar.


Hér má sjá öfugarúllu, þ.e. hrísgrjónin eru utan á
og svo rúlluð upp úr sesamfræjum.

Ég er ekki frá því að þetta hafi einfaldlega heppnast stórvel og mæli eindregið með því að skella sér í sushigerð, þetta er ekkert eins erfitt og það hljómar og endilega - prófið!

Meira síðar.

Ummæli