Japanskt: Créme brulée með grænu tei

Þá er það rétturinn sem sló einna mest í gegn á japanska kvöldinu - eftirrétturinn.  

Ég íhugaði lengi vel að búa til ís með grænu tei, en eftir miklar vangaveltur ákvað ég að leita í franska eldhúsið og gera búðing í staðinn fyrir að gera ís og gera þá créme brulée með grænu tei eftir að hafa rekist á það á einhverri heimasíðunni að væri vinsæll réttur í Japan.

Uppskriftin var eftirfarandi ... einföld grunnuppskrift af créme brulée og grænt te
4.5 dl rjómi
4.5 dl nýmjólk
1,5 msk grænt te (duft)
7 eggjarauður
1.5 dl sykur

Byrjaði á að setja rjómann og mjólkina í pott 
ásamt græna teinu.

Hrærði öllu vel saman og leyfði hitanum að gera sitt 
og ná allt að því suðumarki.

Á meðan setti ég eggjarauðurnar og sykurinn í skál ...

og þeytti þetta saman.

Svo var bara að hella mjólkurblöndunni saman við 
eggjablönduna í mjórri bunu og þeyta saman við.
Síaði svo blönduna og hellti á flösku.

Setti svo form í ofnfat og notaði flöskuna til að hella
búðingnum út í á þægilegan hátt.
Hellti svo vatni í fatið þar til það náði formunum 
upp að miðju. Skellti þessu svo inn í ofn við u.þ.b. 150°C
í sirka 30-40 mínútur.

Eða þar til búðingurinn var farinn að stífna :-)
Dreifði svo sykri yfir búðinginn, hitaði ofninn í hæsta
og skellti þessu inn í að nýju til að bræða sykurinn.

Út kom svo þessi líka fáránlega bragðgóði búðingur
sem svo sannarlega er óhætt að mæla með :-)

Vona að þið prófið og vona að þið njótið!

Meira síðar.

Ummæli