Vöknuð úr dvala með innblástri frá Norður-Írlandi: Beikonkartöflusúpa

Loksins loksins vöknuð úr alltof löngum dvala eftir algera snilldar ferð til Norður-Írlands sem gaf mér innblásturinn sem mig vantaði til að halda áfram.  Ég verð að viðurkenna að ég var komin með smá efasemdir um þetta allt saman hjá mér, hvort það væri nokkur hvort eð er að lesa og síðast en ekki síst hvort að það væri nokkuð áhugavert að lesa þetta hjá mér :)  En eftir frábæran innblástur frá Galgorm og fullt af góðum vinum þá ákvað ég að þetta væri ekki spurning um hvort ég ætti að halda áfram heldur bara að drífa mig af stað aftur enda endalaust mikið af góðum mat sem bíður eftir að vera smakkaður - ég vona bara að þið njótið þess að smakka hann með mér :)

Fyrsta uppskriftin eftir dvalann mikla kemur frá írsku matarboði sem ég skellti í af tilefni þess að ég var að koma úr heimsókn til eyjarinnar grænu og í tilefni þess að ég væri að byrja aftur. Þetta hefði eiginlega varla getað heppnast betur.

Matsteðillinn var heldur í þyngri kantinum, einkum aðalrétturinn og eftirrétturinn þannig að ég ákvað að gera tæra kartöflusúpu í stað hinnar hefðbundnu rjómalöguðu írsku kartöflusúpu. Við urðum svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með hvernig til tókst!

Uppskriftin endaði svo ... dugar vel fyrir 7 í forrétt
3 msk matarolía eða ólífuolía
100 gr beikon
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
1 blaðlaukur
1 dl hvítvín
1 msk steinselja
1 msk blóðbergsblanda (blanda af blóðbergi, birki, aðalbláberjalyngi og einiberjalyngi)
1-2 lárviðarlauf
500 gr rauðar kartöflur
1,5 l soð (ég notaði bæði kjúklinga- og grænmetistening)
500 gr hvítkál
2 sellerístelkar
2 gulrætur
Salt og pipar
Búnt af graslauk

Byrjaði á að saxa grænmetið, skar hvítlaukinn smátt,
skar laukinn í tvennt og í þunnar sneiðar, skar 
blaðlaukinn, gulræturnar og selleríið í sneiðar sömuleiðis.

Skar kartöflurnar í tvennt og í þunnar sneiðar

og að lokum var það hvítkálið sem ég skar fyrst í
ræmur og svo í litla bita. Beikonið skar ég líka í bita.

Þá var að byrja að elda. 
Byrjaði á því að steikja beikonið. Skellti svo laukunum,
gulrótunum og selleríinu út í með og steikti þar til laukurinn
var farinn að mýkjast aðeins. Hellti þá hvítvíninu út í
og leyfði að steikjast þar til það hafði mestu gufað upp.


Þá var bara að bæta vatninu og tengingunum út í, 
sem og lárviðarlaufinu, og leyfa suðunni að koma upp. 
Þegar suðan var komin upp þá bætti ég kartöflunum út í 
og leyfði að sjóða í sirka 5-10 mínútur.

Þá var komið að því að bæta kryddjurtunum út í, 
ég notaði þurrkaða steinselju í þetta skiptið ásamt
teblöndu sem ég nota sem krydd frá Sandi í Aðaldal,
svokölluð blóðbergsblanda og er alveg hrikalega
skemmtileg og gefur svolítið öðruvísi bragð en þegar 
eingöngu er notað blóðberg. Mæli hiklaust með henni.

Þá var að lokum bara að bæta kálinu saman við og
salta og pipra þar til bragðið var farið að líkjast því 
sem mér fannst vera gott og leyfa að sjóða í 5-10 
mínútur í viðbót.

Svo var bara að bera fram og njóta.

Þessi súpa kemur mjög skemmtilega á óvart, sérstaklega miðað við hversu rosalega einföld hún í raun og veru er. Ég ákvað að bera ekki fram brauð með henni út af því að hún er svo full af allskonar gúmmelaði eins og kartöflum og káli sem er svo mettandi. Sömuleiðis þá eins og áður kom fram þá var aðalrétturinn og eftirrétturinn svo vel mettandi að engin ástæða var til að bæta á :)  Þessi súpa sló vægast sagt í gegn hjá gestunum og ég mæli óhikað með henni fyrir alla.

Meira síðar ... lofa.

Ummæli

aslkar sagði…
Mjög skemmtilegt að þú ákvaðst að halda áfram að blogga, ég kíki alltaf hérna inn reglulega :)
Bkv. Áslaug
Vestfirðingurinn sagði…
Kærar þakkir :) Þykir virkilega vænt um að heyra!