Syndsamlega góð súkkulaðibaka með guinnesbjór

Það er einstaka sinnum sem maður smakkar eitthvað svo syndsamlega gott að það nálgast, já, maður allt að því óttast að fá aldrei að smakka neitt svo gott aftur. Eftirrétturinn í írskþemaða boðinu um daginn var gott dæmi um slíka tilfinningu. Fáránlega góð súkkulaðibaka þar sem saman fór saltbragð í botninum og sætubragðið af sykurpúðakreminu og fyllingin af súkkulaðinu og guinnesbjórnum. Já og ekki skemmdi fyrir að drekka vel blandað írskt kaffi með :-)

Hlakka þvílíkt til að gera þessa aftur!

Uppskriftin var eftirfarandi ...
Botninn:
2 dl brotnar saltkringlur/saltstangir
1 dl Siríus súkkulaðikex
5 msk smjör
1/2 dl og 2 msk púðursykur

Fyllingin:
4 eggjarauður
1 dl sykur
1 dl guinnesbjór
2 1/4 dl rjómi
100 gr suðusúkkulaði frá Nóa/siríus
1/4 dl maízanamjöl

Kremið:
2 dl sykur
2 eggjahvítur
1/4 dl vatn
1/8 tsk salt
18 sykurpúðar
1-2 msk guinnesbjór

Byrjaði á að skella saltkringlunum í hakkavélina ...

Hakkaði nokkuð fínt, samt ekki of fínt.

Skellti svo súkkulaðivöflukexinu í hakkarann ...

Hakkaði það frekar fínt, samt ekki of.
Setti í skál ásamt saltkringlunum. 

Bætti svo púðursykrinum saman við ...

og bræddi smjörið og bætti út í og blandaði öllu
vel og vandlega saman.

Tók svo fram pæform og smurði það.
Setti svo saltkringlublönduna út í og þrýsti vel í formið.
Bakaði svo í 10 mínútur við 180°C.

Þegar það kom út hafði allt runnið niður þannig að
ég notaði skeið til að þrýsta því aftur upp hliðarnar,
meðan það var enn heitt.

Lítur aðeins betur út ekki satt?
Setti formið út í gluggakistu við opinn glugga og leyfði
að kólna og jafna sig.

Á meðan botninn var að kólna tók ég fram skál og 
þeytti saman eggjarauðunum og sykrinum. 

Það var meir en nóg að nota bara handþeytara.

Setti eggjahræruna til hliðar og tók fram meðalstóran 
pott og skellti bjórnum út í ásamt rjómanum. 
  
Blandaði saman með sleif og stillti á meðalhita,
leyfði mjólkurbjórblöndunni að hitna að suðumarki,
en passaði að láta suðuna ekki koma upp.

Meðan mjólkubjórblandan var að hitna hakkaði ég
súkkulaðið í bita.

Bætti súkkulaðinu svo út í mjólkurbjórblönduna,
tók pottinn af hitanum og hrærði saman þar til
súkkulaðið hafði bráðnað.

Þegar súkkulaðið hafði bráðnað var að hella 
mjólkurbjórsúkkulaðiblöndunni út í eggjahræruna,
en hella bara í mjórri bunu og hræra stöðugt - 
því annars lendum við í að vera með alvöru eggjahræru :-)

Voilá, allt blandað saman - lítur sveimér vel út!

Svo var að hræra maízanamjölinu út í og ...

skella blöndunni aftur í pottinn. 

Leyfði suðunni að koma upp og hrærði allt að því 
stöðugt til að það myndi þykkna en ekki brenna :-)

Þegar fyllingin var byrjuð að þykkna í pottinum var 
lítið að gera annað en að hella henni ofan í botninn og 
setja svo inn í kæli þar til það styttist í að bera þetta fram.


Rétt áður en var kominn tími til að bera fram bökuna
skellti ég í sykrinum, eggjahvítunum, vatni og sykri
saman í stóra málmskál.

Enn og aftur þá notaði ég bara handþeytara :-)

Skellti skálinni svo ofan á pott með sjóðandi vatni.
Hélt áfram að hræra og hræra.

Bætti bjórnum svo út í og hrærði áfram saman.

Þegar það var kominn góður hiti í þetta, bætti ég svo
sykurpúðunum smátt og smátt út í, en ég 
hafði klippt þá niður til að þeir myndu bráðna hraðar. 
Hrærði öllu saman þar til síðasti sykurpúðinn bráðnaði

Hellti svo sykurpúðablöndunni yfir súkkulaðipæið
og skellti inn í ofn við
240°C grillhitastillingu í 2-4 mínútur.

Þangað til yfirborðið hafði aðeins brúnast og
þetta leit svona líka fallega út :-)

Ég get eiginlega ekki mælt nógu vel með þessu. Þetta var eiginlega svo fáránlega gott. Saltbragðið í botninum náði einhvernveginn að vega upp á móti sætubragðinu í sykurpúðakreminu og namm, ég á eiginlega ekki nægjanlega sterk orð til að lýsa því hvað þetta var gott! Þið verðið einfaldlega að prófa og smakka sjálf.

Meira síðar.

Ummæli