Einfaldur ofnbakaður kjúklingur með kókos og kóriander

Þó þið gætuð kannski haldið annað lesendur góðir, þá elska ég einfaldar uppskriftir. Tala nú ekki um ef þær eru fljótlegar líka - sérstaklega kannski svona hversdags þar sem ég nenni engan veginn að elda þegar ég kem heim úr vinnunni seinni partinn og langar mest til að skríða upp í rúm, eða allavega upp í sófa og horfa á sjónvarpið.

Þá er þetta alger snilldar réttur. Það er yndislega einfalt að gera hann. Eina sem þarf til er að skella næstum öllum hráefnunum í blandara, setja kjúkling í eldfastform og hella innihaldinu úr blandaranum yfir og skella inn í ofn. Got to love it!

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 1-2 (einfalt að margfalda)
1 kjúklingabringa
1/4 tsk salt
2 dl kókosmjólk
1/2 cm biti sítrónugras
1/2-1 búnt ferskt kóríander
1 cm engiferbiti
1/2 tsk garam masala
2 hvítlauksgeirar
3-5 bitar jalapeno (eftir smekk)
1 msk matarolía
Tagliatelle pasta eða hrísgrjón

Byrjaði á því að taka fram litla blandarann
og setti þar sneitt sítrónugrasið og bita
af engiferinu.

Tróð svo kórianderinu ofan í ...

og garam masala, saltinu og jalapenoinu og hvítlauknum.

Hellti svo kókosmjólkinni og matarolíunni út í
og lét blandarann um að blanda öllu saman.

Setti svo kjúklingabringuna í lítið eldfast mót sem 
ég hafði smurt. Hellti svo kókosmjólkurblöndunni 
yfir kjúklinginn. Skellti þessu svo inn í 180°C heitan ofn. 
Skellti svo pasta í pott og leyfði að sjóða á meðan 
kjúklingurinn var í ofninum. 

Um það bil 15-20 mínútum síðar var hægt að taka þetta
út úr ofninum og auðvitað tékka á bringunni fyrst hvort
hún væri ekki örugglega elduð í gegn :-)

Svo var bara að njóta!

Þetta var fáránlega gott og ég hef sjaldan fengið jafn rosalega djúsí og bragðgóðan kjúkling - mæli óhikað með þessu.

Meira síðar.

Ummæli