Perufyllt beikonvafin kalkúnabringa

Um áramótin ákvað ég að breyta aðeins til og borða heima með vinum mínum. Þar að auki ákvað ég að prófa að elda kalkúnabringu í stað þess að vera með heilan kalkún og namm hvað það heppnaðist vel!

Perufyllt beikonvafin kalkúnabringa hljómaði svolítið ævintýralegt þegar ég byrjaði að skoða uppskriftina en eftir að hafa gert smávægilegar persónulegar breytingar þá varð þetta nú eiginlega bara gaman og eiginlega miklu betra heldur en heill kalkúnn.

Uppskriftin var eftirfarandi ... dugar fyrir 5 (með meðlæti)
Pækill
6 dl vatn
1/2 dl salt
1/2 dl sykur
3 msk timijan
1 msk salvía
2 þurrkuð chillí

Kalkúninn sjálfur
1 Kalkúnabringa
1-2 msk smjör
1 skallottulaukur
1/2 msk salvía
1 tsk timijan
2 þurrkuð chillí
Salt og pipar
1 pera
1-2 msk valhnetur
1 dl brauðmolar
1/2-1 dl kjúklingaboð
Svartur pipar
6 beikonstrimlar
1 tsk reykt paprikuduft
2 msk matarolía

Daginn fyrir gamlársdag tók ég kalkúnabringuna úr
frysti og leyfði að þiðna á disk á eldavélinni. Um kvöldið
setti ég bringuna svo í pækilinn, tók fram sæmilega stórt
fat og setti innihaldsefnin í fatið ásamt kalkúnabringunni.
Setti fatið svo inn í ískáp þar til kominn var tími til að 
elda bringuna.

Sirka tveimur tímum áður en bringan átti að vera tilbúin
byrjaði ég á að gera perufyllinguna. 
Saxaði skallottulaukinn og skar peruna í bita.
Tók fram stóra pönnu og bræddi smjör, bætti svo
lauknum, kryddunum og perunni út á og steikti í
um það bil fimm mínútur.

Hellti svo perublöndunni af pönnunni og í stóra skál 

Bætti valhnetunum út í ... 
brauðmolunum og kjúklingasoðinu.

Blandaði svo öllu vel saman.
Tók svo kalkúnabringuna út pæklinum, skolaði og 
þerraði með pappír. Skar hana svo þvera næstum alla leið
þannig að hægt var að opna hana eins og bók og
setti fyllinguna inn í. Lokaði bringunni svo aftur
og notaði grillpinna til að reyna að halda öllu saman,
en ég átti því miður ekki band til að nota en augljóslega
væri það langþægilegast.

Svo var bara að vefja bringuna með beikoninu,
ég var með stórar beikonsneiðar en auðvitað má hafa
minni sneiðar og þá fleiri. Tók svo stóra pönnu og 
bræddi sirka 50 gr af smjöri í henni og steikti  
bringuna á öllum hliðum.

Tók svo tvöfaldan bökunarpappír og reyndi að búa til
hreiður og setti kalkúnabringuna þar í.
Setti svo inn í ofn við 180°C  

Um klukktíma síðar, eða þegar hitamælirinn
sýndi 72°C. Þá tók ég bringuna út og vafði
hana inn í álpappír og leyfði að standa í smá stund.

Þetta reyndist vera alveg hreint hrikalega gott og var boðið fram með tvennskonar sætum kartöfluréttum, sveppasósu með piparosti og ofnbakaðri fyllingu.  Klikkaði ekki um áramótin :-)

Meira síðar.

Ummæli