Nýr veitingastaður á Höfðatorgi: Bambus og uppskrift: kínversk kjúklingasúpa

Í tilefni af því að vera í Reykjavík ákvað ég að skella mér út að borða með vinkonu minni og gera eins og eina veitingahúsarýni í leiðinni. Staðurinn sem varð fyrir valinu í þetta skiptið var Bambus, nýr staður á Höfðatorgi í Reykjavík sem litla systir mælti alveg sérstaklega vel með.  Bambus segist sérhæfa sig í "casual fine dining" asískri matarmenningu eins og segir á heimasíðunni þeirra og ég get alveg tekið undir það - virkilega skemmtilegur staður og fallega innréttaður. Það var hlýlegt en samt nútímalegt að koma þarna inn og lítið hvað varðar staðinn sjálfan sem hægt er að gagnrýna. Við vinkonurnar áttum þarna virkilega skemmtilega stund, sem reyndar varð aðeins lengri en við ætluðum þar sem við "gleymdumst" en þetta er, eins og áður hefur komið fram, alveg glænýr staður og greinilegt að starfsfólkið var enn að læra og eins og einn þjónninn sagði - það hafði aldrei verið jafn mikið að gera hjá þeim áður. Við tókum nú bara vel í það allt saman enda langt síðan við höfðum hist síðast og höfðum nóg að tala um :-) Á meðan við biðum var boðið upp á krabbaflögur og indverskar flatkökur eða pappadoms.

Eins og góðum matarrýni sæmir þá fékk ég mér auðvitað þriggja rétta máltíð. Í forrétt fékk ég mér klassíska Szechuan súpu (kr. 1.550), í aðalrétt varð kjúklingaveltisteiking með basil- og chillisósu ,,firecracker" - sterk (kr. 2.950) fyrir valinu og í eftirrétt stóðst ég ekki mátið og fékk mér kókos- og kardimommubúðing (kr. 1.450), enda mikill kókosaðdáandi.

Forrétturinn



Forrétturinn var bókstaflega geggjaður. Þetta var rótsterk súpa en samt ekki þannig að sterkabragðið yfirgnæfði sjálft súpubragðið. Ég verð að viðurkenna að þetta var líklega besta súpa sem ég hef fengið (svona fyrir utan íslensku kjötsúpuna og aspasjólasúpuna hennar mömmu). Bragðið var ótrúlega áhugavert, súrt, sætt og sterkt allt í bland og já, vægast sagt gott. Það mátti finna þarna undirtóna frá engiferi, sítrónugrasi og fleiru og svo var örugglega hvítur pipar þarna á ferli lílka. Eins og sjá má á myndinni þá var kjúklingur þarna líka og það var eiginlega eini gallinn sem ég gat fundið við þessa súpu, þ.e. að það var of mikið kjúklingabragð af kjúklingnum (get eiginlega ekki lýst því öðruvísi) en ég hafði líka smá áhyggjur af því að verða of södd af forréttinum þannig að ég sleppti bara mestu af kjúklingnum til að hafa pláss fyrir allt hitt.  Sem sagt, súpan var rosalega góð og vel hægt að mæla með henni - magnið var þannig að þetta hefði verið léttur kvöldmatur en of lítið sem kvöldmatur einn og sér, en passlegt, hugsanlega í það mesta sem forréttur.
4,5 stjörnur af 5.

Aðalrétturinn



Aðalrétturinn var mjög góður, þó ég hafi reyndar orðið fyrir smá vonbrigðum með styrkleikann á réttinum, þ.e. fann engan bruna neitt eins og ég hefði viljað miðað við lýsinguna á réttinum. En bragðgóður var hann og vel útilátinn.  Þetta var skemmtileg blanda af grænmeti og kjöti og grænmetið var alla jafna akkúrat steikt, þ.e. al dente ef taka má svo til orða um grænmeti. Ég hefði samt viljað finna aðeins meira bragð af sósunni, grænmetið varð svolítið yfirgnæfandi og styrkleikann vantaði svolítið en svo eins og litla systir segir, það er líklega lítið að marka mig þegar kemur að sterku - þetta þarf að vera alvöru sterkt svo ég finni almennilega fyrir því :-) Sem sagt, vel útilátið og bragðgott, stóð þó ekki undir vonum.
4 stjörnur af 5.

Eftirrétturinn




Eftir svona ágæta máltíð kom auðvitað ekki annað til greina en að fá sér eftirrétt og ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var kókosbúðingur og ofan á var einhverskonar kókossykurbráð og svo kókosflögur ofan á. Búðingurinn sjálfur var var alveg svakalega góður en það eina sem mér fannst svolítið skemma fyrir var að vera með kókosmjöl í sykurbráðinni, en það gerði áferðina á efri hluta búðingsins svolítið skrýtna, ég hefði látið duga að vera með sykurbráðina og svo kókosflögurnar ofan á. Sömuleiðis fannst mér súkkulaðisýrópið pinku vera svolítið æj, eins og það væri úr brúsa - leit samt voðalega vel út á disk eins og þið sjáið. Búðingurinn fyrir neðan sykurbráðina var hins vegar hrikalega góður og silkimjúkur. Sem sagt, virkilega góður búðingur fyrir utan sykurbráðina.
4 stjörnur af 5

Í heildina, virkilega notalegur veitingastaður þó að þau séu enn greinilega að læra, enda glænýr staður. Þjónustan þegar hún loksins kom var virkilega góð og maturinn góður sömuleiðis. Þá skemmdi ekki fyrir að verðið var sanngjarnt. Ég mun örugglega fara þarna aftur og prófa fleiri rétti.
4,5 stjörnur af 5

Svona til að gefa ykkur einhverja hugmynd um hvernig súpan smakkaðist ákvað ég að reyna að búa til svipaða súpu hérna heima og namm þessi súpa var fáránlega góð, jafnvel betri heldur en súpan á Bambus (þó ég segi sjálf frá) - fæ enn vatn í munninn bara að hugsa um hana :-)  Ekta súpa fyrir þá sem líkar við sterkt og jafnvel enn betri fyrir þá sem eru með kvef ... þetta losar vel úr öllum stíflum ;-)

Uppskriftin var eftirfarandi ... dugði fyrir 3 sem aðalréttur
Chillíolía
1/2 laukur
1 hvítlauksgeiri
1 skallottulaukur
3 msk sterkt chillíduft
200 gr matarolía
1 þurrkað chillí

Súpan
2-3 kjúklingabringur
2 lítrar vatn
2 grænmetisteningar
1/2 kjúklingateningur
1 sítrónugras
2 cm engiferbiti
100-200 gr litlir sveppir
1 græn paprika
1/2-1 laukur
50 gr bambusbitar
1 tsk flórsykur
3 msk hrísgrjónaedik
1 msk soyjasósa
2 tsk chillíolía
1 tsk salt
1/2-1 tsk hvítur pipar
1 msk maízanamjöl
1-2 msk kalt vatn
1 tsk sesamolíla
1 þurrkað chillí

Byrjaði á að gera chillíolíuna - setti í töfrasprotann 
hvítlauk, lauk og vorlauk ...

... matarolía, sterkt chillíduft og þurrkað chillí
og svo var bara að láta töfrasprotann vinna galdra sína.

Setti sullið svo í lítinn pott 
og leyfði að sjóða í sirka 5 mínútur.

Voilá, chilíolíla tilbúin. 
Næst hugsa ég samt að ég noti eingöngu þurrkuð chillí.

Tók svo kjúklingabringurnar og steikti upp úr chillíolíu,
sirka 10-15 mínútur á hvorri hlið.

Þá var það súpan. 
Byrjaði á að setja vatnið í pott og setti í hann
teningana til að búa til soð.

Skar engiferbitann smátt og setti út í pottinn.

Tók sveppina og skar í helminga, 
passaði að kaupa frekar litla sveppi :-)
Augljóslega ef þið eruð með stærri sveppi = fleiri bita.

Skar laukinn gróft.

Saxaði sítrónugrasið fínt.

Skellti þessu öllu út í pottinn og leyfði að sjóða.

Skar bambusstrimlana í mjórri strimla ...

Skar grænu paprikuna sömuleiðis í mjóa strimla.
Setti bæði bambusinn og paprikuna út í pottinn.

Þá var að krydda.
Setti flórsykurinn út í, sem og hvítan pipar og salt.

soyjasósuna ... 

hrísgrjónaedikið ...

seasamolían ...

og chillíolíuna.

Að lokum blandaði ég saman vatn og maízanamjöli
og bætti út í. Svo var bara smakka þetta til, það er 
til dæmis gott að bæta smá sítrónusafa út í, þurrkað 
chillí, sem og meiri tening.

Að lokum var bara að skera kjúklingabringurnar niður
í munnbita og setja út í súpuna. Leyfði súpunni að sjóða
í sirka 5 mínútur í viðbót ...

Svo var bara að bera fram og eins og sést þá kláraðist
hún hratt og vel enda mjög vel heppnuð :-)

Ég var ekkert lítið ánægð með hvað þessi súpa heppnaðist vel, jafnvel betur en hún hafði verið á Bambus (og þá er nú mikið sagt). Þetta verður svo sannarlega gert aftur á þessu heimili - fáránlega bragðgóð og hressandi súpa sem var borðuð upp til agna!

Meira síðar.

Ummæli