Sellerírótarremúlaði

Það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar kemur að matarboðum og eitt af því er að reyna að velja meðlæti sem fer vel með aðalréttinum. Það er eitthvað sem mér finnst alveg virkilega gaman að gera þó að ég fari reyndar stundum aðeins út í öfgar (eins og að vera með 2 fyllingar, 3 sósur og og og) ... en það er reyndar líka út af því að mér finnst bara svo gaman að prófa ólíka hluti.

Eitt af því sem fékk að fljóta með í franska boðinu var einskonar remúlaði með sellerírót. Bara nafnið hljómar undarlega  en útkoman var svo sannarlega góð, uppskriftin var yndislega einfalt og þetta reyndist hrikalega bragðgott en svo sannarlega aðeins öðruvísi en venjulega :-)

Einn af kostunum við þessa uppskrift er að það er lítið mál að gera þetta fyrr um daginn og skella svo inn í ískáp eða út á svalir svona yfir vetrartímann og geyma þar til tími er kominn til borðhalds.

Uppskriftin endaði svona ... dugar sem meðlæti fyrir 6-8
3 msk dijon sinnep
3 eggjarauður
3 dl matarolía
1/4-1/2 cayenne pipar
2 sítrónur
1 stór sellerírót ~1-1,5 kg
1 msk grænar ólífur ~5 ólífur
Steinselja

Byrjaði á því að hreinsa og svo skera sellerírótina,
 byrjaði á því að nota mandólín en endaði á því að 
sneiða ofan á puttanum á mér (mæli ekki með því)
og endaði á að þurfa að fá einn gestanna til að búa 
um sárið seinna um kvöldið :-) En ég skar meirihlutann
einfaldlega með hníf og það kom eiginlega bara betur út.

Tók svo fram stóra skál og setti í hana sinnepið og
eggjarauðurnar (tók myndina aðeins of snemma) ...

Þeytti sinnepinu og eggjarauðunum saman og svo 
hófst þolinmæðisvinnan ... Þeyta og svo hella matarolíunni
hægt og rólega út í meðan þeytt er í mjórri bunu ...
eins gott að vera sæmilega góður í upphandleggjunum :-)

Fjúff, matarolían loksins búin og majónesið að verða til.

Hellti þá sítrónusafanum og cayanne piparnum í skálina
og hrærði saman við.

Saxaði ólífurnar og setti út í skálina ...

ásamt sellerírótinni og kryddaði með salt og pipar.

Svo var bara að blanda öllu vel saman.

Bætti að lokum steinseljunni út á og skellti þessu
svo út á svalir rétt á meðan ég kláraði allt annað.

Voilá - bara að njóta!

Mæli hiklaust með þessu - tilbreyting frá þessu hefðbundna og virkilega gott!

Meira síðar.

Ummæli