Karamelluhúðaðar vatnsdeigsbollur fylltar með vanillukremi (Croquembouche)

Það er fátt sem Frakkar gera illa þegar kemur að matseld en fátt gera þeir betur en eftirrétti.

Það var því við hæfi á franska kvöldinu að skella í alvöru eftirrétt ... alveg pinku flókið en algerlega vel þess virði!

Uppskriftin var eftirfarandi ...
Vatnsdeigsbollur
170 gr smjör
3 dl vatn
1/4 tsk salt
4 dl hveiti
9 egg.

Fyllingin
3 dl mjólk
1 dl sykur
3 msk maízanamjöl
4 eggjarauður
1 1/2 tsk vanilludropar
226 gr smjör, mýkt

Karamella
8 dl sykur

Byrjið á því að stilla ofninn á 200°C. Setjið svo
smjörið og 3 dl af vatni í pott. Leyfið suðunni að 
koma upp og smjörinu að bráðna og blandast vatninu.

Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu smátt og
smátt saman við smjörvatnblönduna með trésleif ...

Allt þar til allt hveitið er komið saman við og deigið
hefur losnað frá potthliðunum.

Færið deigið yfir í skál.

Hrærið svo 8 eggjum saman við deigið, einu í einu ...

Þetta er alveg smá þolinmæðisverk ... ekki gefast upp!

Deigið verður svo að lokum orðið glansandi fallegt :-)

Svo var bara að nota tvær skeiðar til að móta bollur 
og nota heitt vatn í bolla til að auðvelda verkið.

Notaði gaffal til að þeyta saman síðasta egginu og salti.

Raðaði bollunum á ofnplötu og burstaði 
svo með eggjablöndunni. Setti þær svo inn í heitan ofninn
og leyfði þeim að bakast í 10 mínútur. Lækkaði þá hitann
í 180°C og leyfði að bakast í 15 mínútur.
Tók þær þá út úr ofninum og leyfði að kólna. 

Nokkrum tímum seinna var kominn tími á að gera 
fyllinguna. Tók fram pott og setti í hann 2 dl mjólk og
sykurinn. Leyfði suðunni að koma upp. 

Á meðan suðan var að koma upp setti ég saman í skál
mjólk, eggjarauðum og maízanamjölog þeytti saman.

Þegar sykurinn hafði leystst upp tók ég pottinn af hellunni
og hellti mjólkinni hægt og rólega saman við 
eggjamjólkurblönduna og þeytti öllu saman.

Lofaði góðu :-)

Hellti blöndunni svo allri aftur í pottinn og leyfði
suðunni að koma upp og hitaði þar til að þetta var 
farið að þykkna.

Bætti þá vanilludropunum saman við.

Hellti búðingnum svo í skál og setti inn í ískáp til að 
leyfa þessu að jafna sig og kólna.

Þá var að klára fyllinguna. Þeytti smjörið vel ...

Hellti kalda búðingnum svo út í ...

og blandaði þessu varlega saman.

Svo var bara að koma fyllingunni inn í bollurnar ...

áður en ég tókst handa við að búa til karamelluna.
Setti sykurinn á pönnu og svo var bara að vera þolinmóð 

þar til karamella hafði myndast :-)

Svo var bara að dýfa bollunum ofan í karamelluna ...
passið ykkur hún er hrikalega heit!

Reyndi svo að raða þeim upp í hrúgu - 
þarf að fá mér betri disk til að bera fram.

Svo var bara að bera fram og namm - njóta!

Þetta var virkilega skemmtilegur eftirréttur. Bragðgóður og skemmtilegur og skemmtilegur kontrast á milli mýktarinnar í bollunum og hörkunar í karamellunni. 

Namm!

Meira síðar.

Ummæli