Hægeldað lambalæri með rósmarín og grænmeti

Það er fátt sem ég elska meira í eldamennsku en þegar ég get sett allt í einn pott og kveikt undir (eða setja inn í ofn eins og í þessu tilfelli) og þurfa ekkert að hugsa meira um matinn fyrr en kemur að því að bera hann fram. Þetta á alveg sérstaklega við þegar ég á von á mörgum í mat en aðallega finnst mér þetta yndislegt því þetta gefur mér svo góðan tíma til að dunda mér við meðlætið :-)

Nema hvað, á fraskþemaða afmæliskvöldinu um daginn ákvað ég að skella í lambalæri. Þetta var yndislega einfalt - allt í einum potti og eldað hægt og rólega við fremur lágan hita.

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir ~12 manns
2 lambalæri (~5 kg samtals)
Smjör
Salt og pipar
1 1/2 kg rauðar kartöflur
20 hvítlauksgeirar
8 gulrætur
6 ferskar rósmaríngreinar
2 laukar
3 dl hvítvín
6 dl kjúklingasoð

Byrjaði á því að hita ofninn upp í 220°C.
Setti smjörklumpa og salt og pipar ofan á lærin sem ég  
hafði komið haganlega fyrir ofan í stórum steikarpotti.
Skellti þeim inn í ofninn án þess að loka pottinum ...

eftir sirka 10 mínútur tók ég lærin út og snéri þeim
og setti aftur inn í ofninn í sirka 10 mínútur.

Á meðan skar ég grænmetið.
Skar gulræturnar í grófa bita.

Hreinsaði og marði hvítlaukinn.

Hreinsaði laukinn og skar í grófa báta.

Skellti grænmetinu öllu í steikarpotinn og reyndi 
að koma sem haganlegast fyrir.

Hellti svo hvítvíninu og kjúklingasoðinu út í.

Kom kjöthitamælinum fyrir þannig að ekki snerti bein.
Setti pottinn svo inn í ofninn, í þetta skiptið með lokinu
en ég hafði lækkaði hitann í sirka 150°C. Þarna
fékk potturinn að vera í tæpa 4 tíma, en þá
tók ég pottinn út og leyfði lærunum að jafna sig 
í sirka hálftíma áður en ég bar þau fram.

Fyrra lærið komið upp úr ...

Notaði soðið og grænmetið í sósu og meðlætið.

Svo var bara að skera og njóta.
Hrikalega bragðgott og yndislega meyrt.

Þetta fékk virkilega góða dóma og meira að segja mér (ég er ekkert sérstaklega hrifin af lambakjöti) fannst það virkilega gott! Það var svo enn betra daginn eftir ofan á girnilega afgangasamloku :-) Einfalt, hrikalega gott og þægilegt - getur ekki verið betra!

Meira síðar.

Ummæli