Chile de queso - Ostaídýfa

Í tilefni af þvi að frænka mín sem hefur verið búsett í Texas síðustu mánuði fer að koma heim á næstunni ákvað ég að skella í matarboð með Texasþema. Ég leitaði ráða hjá frænku um hvað væru klassískir réttir í Texas og leitaði svo uppskrifta í bókum og á netinu og úr varð algert snilldar matarboð með frábæru fólki og hrikalega góðum mat. Maturinn var raunar svo góður að ég nefndi það að fyrrabragði hversu góður mér þætti hann - sem gerist nánast aldrei!

Í forrétt var algerlega geggjuð ostaídýfa og dugði hún svo vel að ég notaði hana í forrétt þegar hluti af stórfjölsyldunni mætti í mat í kvöld :)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
1 lítill laukur
4 hvítlauksgeirar
3 rauð chillí
9-12 bitar af jalapeno pipar úr krukku
2 msk smjör
2 msk hveiti
2 dl mjólk
12 dl rifinn ostur (ég notaði bæði cheddar og venjulegan 26% ost)
Ferskt kóriander, hálft búnt
2 tómatar
1 dl sýrður rjómi
Salt og pipar

Byrjaði á því að skera laukinn og chillíin í bita,
bræddi smjörið pönnu og skellti lauknum og chillíinu
á pönnuna og steikti í 2-3 mínútur áður en ég bætti
hvítlauknum út í. Blandaði öllur vel saman 
og steikti aðeins lengur.

Bætti svo jalapeno og tómötunum út í, ásamt hveitinu.
Hrærði vel saman áður en ég bætti mjólkinni út í.
Hrærði reglulega og leyfði að þykkna.

Svo var bara að bæta ostinum út í, smátt og smátt.

Bætti svo kóriandernum út í undir lokin ...

Að lokum þegar allur osturinn var kominn út í 
bætti ég sýrða rjómanum út í.

Svo var bara að hræra hægt og rólega þangað til
allur osturinn var örugglega bráðinn og 
sýrði rjóminn hafði blandast vel saman við.
Bætti svo að lokum örlitlu af salti og pipar út í.

Svo var bara að bera þetta fram með tortilla flögum 
... og njóta :)

Þetta var eiginlega bara fáránlega gott og óhætt að mæla með þessu við hverskonar tækifæri, til dæmis sem forréttur í matarboði eins og í þessu dæmi en svo er þetta alveg örugglega alger snilldar partýréttur - þetta er a.m.k. hrikalega gott með ísköldum bjór.

Njótið!

Meira síðar.

Ummæli