Morgunverður undir grískum áhrifum

Ég veit ekki með ykkur, en ég er alveg ótrúlega léleg að búa mér til morgunmat og langar að vera duglegri við það. Mig langar mikið að bæta úr þessu og ætla þess vegna að vera með smá morgunverðarþema hérna á blogginu næstu vikuna eða svo :-)

Fyrsta uppskriftin sem ég prófaði var yndislega einföld og eiginlega hrikalega góð - kom virkilega sterk inn. Þetta var líka fljótlegt og þægilegt, sérstaklega ef maður gerir hummusinn kvöldið áður og því óhætt að mæla með þessari.

Uppskriftin var eftirfarandi ...
2 egg
Salt og pipar
Fersk basilíka
Fersk oreganó
Olía
1/2 blaðlaukur
1/2 paprika, rauð
Hummus
Fetaostur
2 pítur

Byrjaði á því að setja eggin í djúpan disk ásamt salt og pipar.
Notaði svo gaffal til að þeyta þessu saman.

Tók svo fram pönnu og setti olíu í botninn og hitaði.

Svo var bara að skella eggjablöndunni út í og elda.

Skar blaðlaukinn í þunnar sneiðar og skar þær svo í tvennt.

Skar paprikuna frekar smátt.

Skellti lauknum og paprikunni út á pönnuna og hrærði vel saman.

Bætti svo fersku oreganó og basiliku út í og voilá, fyllingin tilbúin.

Tók svo pítubrauð og hitaði aðeins og skar svo í tvennt.

Smurði svo hummus á pítubrauðin.

Setti svo eggjafyllingu ofan á.

Að lokum var svo bara að dreifa fetaosti yfir eftir smekk og
svo bara að njóta!

Mæli eindregið með þessu - ferskur og góður og fyllandi morgunverður við öll tækifæri :-)

Meira síðar.

Ummæli