Argentískt kornbrauð með maís og osti

Það var argentínskt þema í tilraunaeldhúsinu um daginn. Argentína var algerlega í uppáhaldi hérna megin ... Nautakjöt í öll mál = Gott mál! :-)  Það er þó ekki nóg að vera eingöngu með nautakjöt. Það þarf líka að vera meðlæti og eitt af því sem ég bar fram með nautakjötsréttinum var kornbrauð og það er uppskriftin sem mig langar að deila með ykkur í dag.

Uppskriftin var eftirfarandi ... dugar í 1 brauð
2 egg
160 ml mjólk
1/2 dl ólífuolía
2 dl hveiti
2 dl kornmjöl/polenta
1 msk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 msk sykur
1 dl maískorn
1 Jalapeño
1/2 - 1 dl rifinn ostur

Byrjaði á að setja öll blautefnin saman í skál.

Bætti svo þurrefnunum út í og notaði sleif til að blanda öllu vel saman.

Bætti svo korninu (gulu baununum) og jalapeñoinu út í.

Blandaði öllu svo saman og voilá deigið tilbúð.

Tók svo fram hringform sem ég smurði og hristi hveiti. 
Setti helminginn í deiginu í formið.

Dreifði rifna ostinum yfir.

Hellti svo restinni af deiginu yfir og svo var bara að skella þessu
inn í ofninn sem stilltur var á 200°C.

Bakaði brauðið svo í sirka 35 mínútur eða þar til 
tannstöngull kom nokkuð hreinn út.

Þetta reyndist hið besta brauð og nokkuð matarmikið en við vorum 10 í mat og það dugði vel með matnum. 

Njótið!

Meira síðar.

Ummæli