Kókoskaffi-Triffli

Úff, þetta sumar hefur verið örlítið meira annasamt en gert var ráð fyrir og það hefur svo sannarlega haft áhrif á bloggtíðnina hér ... Nema hvað - ég gerði algerlega magnað kókoskaffi triffli fyrir útskriftina mína í lok júní sem ég hreinlega verð að deila með ykkur = algerlega fáránlega gott!

Uppskriftin var eftirfarandi ...
Kaffisvampbotn
3 msk malað espressokaffi
3 msk sjóðandi vatn
2 egg
1/2 dl púðursykur
40 gr hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 1/2 msk matarolía

Kókosbúðingur
400 ml kókosmjólk
3 egg
3 msk sykur
2 tsk maízanamjöl

2 msk koníak
2 1/2 dl rjómi
2 msk flórsykur

Fyrst var einfaldlega að blanda saman kaffinu og sjóðandi
vatni og sía svo í gegnum sigti.



Þeytti svo saman egg og púðursykur í stórri skál.

Þeyta þeyta þeyta ...

Bætti svo út í kaffinu ...

Olíu ...

og hveitinu ...

Hellti svo blöndunni í form og skellti inn í 160°C
í sirka 20 mínútur.

Namm hvað hún kom girnilega út! 
Hefði næstum verið til í að borða þessa eintóma með
smá bráðnu súkkulaði.

Þá var að gera búðinginn!
Skellti kókosmjólkinni í djúpa pönnu og hitaði þar
til suðan var ansi nálægt því að koma upp.

Skellti eggjunum í skál,

ásamt sykrinum og maízanamjölinu og þeytti saman

þar til þetta var farið að freiða (notaði handþeytara)
og blandaði svo saman við heita kókosmjólkina sem
þá byrjaði að þykkna og breytast í búðing.

Þá var bara að skera kaffisvampbotninn í bita og raða
í botninn á djúpri skál. Hellti koníakinu yfir ... það 
væri líklega enn betra að nota kaffilíkjör
ef þið eigið svoleiðis ...


Hellti svo kókosbúðingnum yfir og svo að lokum
var bara að þeyta rjóma og dreifa yfir og
voilá, þið eruð komin með fáránlega góðan eftirrétt!

Þessi sló algerlega í gegn í útskriftarveislunni - raunar svo að ég náði ekki einu sinni að smakka hann :-)  En mér heyrðist á kommentum vina og ættingja að hann væri algerlega málið þannig að ég mæli óhikað með honum. Einfalt, létt og þægilegt!

Meira síðar.

Ummæli