Boston Cream Pie

Ég tók mig til og kláraði masterinn í landfræði loksins um daginn. Í tilefni útskriftarinnar skellti ég í smá kökuboð fyrir familíuna og nýtti tækifærið til að prófa ameríska köku sem mig hefur lengi langað til að prófa: Boston Cream Pie - heitir baka en er í raun kaka!  Þessi kaka sameinar næstum allt sem mér finnst gott, þ.e. vanilla, búðingur og súkkulaði - vantar bara karamelluna :)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
Kakan
2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
113 gr smjör, mýkt
2 egg
2 dl sykur
1 1/2 tsk vanilludropar
1 msk hreinn appelsínusafi

Búðingurinn
3 eggjarauður
6 msk sykur
3 msk hveiti
3 dl mjólk
1 1/2 msk smjör
1 1/2 msk hreinn appelsínusafi
1/2 tsk vanilludropar

Súkkulaðikremið
115 gr suðusúkulaði
2 msk flórsykur
1/2 dl rjómi

Byrjaði á að sigta hveitið, lyftiduft og salt saman í skál.

Tók svo fram aðra skál og setti þar í smjörið og sykurinn
og hrærði vel saman.

Bætti þá út í vanilludropunum og appelsínusafanum
og blandaði enn betur saman.

Þá var að bæta eggjunum út í og hræra vel eftir hvert egg.

Þegar eggin voru orðin vel blönduð var svo lítið mál 
að blanda hveitiblöndunni út í smátt og smátt - 
hræra vel á milli.

Namm hvað þetta var bragðgott deig!

Þá var bara að setja deigið í smurt form (20 cm)
en æskilegt er að nota springform (form sem hægt er
að opna) en þá er þægilegra að ná kökunni úr.
Setjið líka bökunarpappír í botninn!

Skellti kökunni inn í ofninn í 40 mínútur eða þar til
tannstöngull sem ég stakk í miðjuna kom upp hreinn.
Leyfði kökunni svo að kólna í sirka 30 mínútur.

Þá var að gera búðinginn.
Hitaði mjólkina í djúpri pönnu (lét ekki sjóða - bara hitna).

Tók fram litla skál og handþeytti þar eggjarauðurnar 
ásamt sykri og hveiti. Hellti svo 1 dl af heitri mjólk
út í hveitieggjablönduna og hrærði vel saman ...

eða þar til þetta var orðin silkimjúk og þunnblanda.

Hellti svo blöndunni út í búðinginn og hitaði og hrærði
þar til búðingurinn hafði þykknað. Þegar blandan
hafði soðið í sirka eina mínútu var búðingurinn tilbúinn.

Þá tók ég pönnuna af hitanum 
og hellti út í appelsínusafanum ...

og sömuleiðis smjörinu og vanilludropunum.
Hrærði öllu vel saman og setti til hliðar 
og leyfði að kólna.

Þá var að gera súkkulaðigljáann.
Setti öll innihaldsefnin í lítinn pott og leyfði súkkulaðinu
að bráðna saman við rjómann og sykurinn.

Þá var bara að setja saman kökuna.
Byrjaði á að klippa hana í tvennt með girni.
Setti svo búðinginn ofan á neðri helminginn - 
hinn helmingurinn fór svo ofan á og svo
súkkulaðigljáinn þar ofan á.
Voilá, stórglæsileg og brjálæðislega góð kaka tilbúin til átu!

Verð nú eiginlega að deila þessu með ykkur líka, 
en ég reyndi viku seinna að gera þessa köku aftur og 
klikkaði þá á að setja pappír í botninn ...
Þá var bara að rífa kökuna niður og setja í skál ...

Hellti svo búðingnum yfir og blandaði saman við kökuna.

Svo var bara að hella súkkulaðiblöndunni yfir!
Voilá, ágætasti eftirréttur tilbúinn :)

Þessi kaka verður svo sannarlega gerð aftur á þessu heimili við næsta tilefni ... og þá mun ég ekki klikka á að setja pappír í botninn ;)  

Meira síðar.

Ummæli