Viský-BBQ kjúklingur

Það er fátt skemmtilegra í góðu veðri en að grilla góðan mat! Einn af mínum uppáhaldsgrillurum (eins hallærislega og það hljómar) er Bobby Flay og ég prófaði uppskrift frá honum um daginn og hún var það góð að mér fannst algerlega ástæða til að deila henni með ykkur!  Hún lítur alveg út fyrir að vera pinku flókin (vegna fjölda innihaldsefna) en þetta er alls ekki jafn flókið og það lítur út fyrir að vera þannig að ekki láta þetta hræða ykkur frá því að prófa :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 4
Þurrkryddið
3 msk kanill
3 msk sterkt chilíduft
1-2 þurrkuð chillí
3 msk cumin
3 msk þurrkaður kóriander
3 msk malaður engifer
1 msk fennelfræ
2 msk hvítlauksduft
2 msk laukduft
1 msk allrahanda
3 msk púðursykur
2 msk gróft salt
2 msk svartur pipar
1 tsk cayenne pipar

BBQ sósan
2 msk matarolía
1 msk laukur
3 hvítlauksgeirar
1 dl viský
2 dl tómatsósa
75 ml vatn
2 msk chillíduft
1 msk paprikuduft
1 kúfuð skeið af dijon sinnepi
1 msk rauðvínsedik
1 msk Worcestershire sósa
1 msk chipotle chillísósa
2 msk púðursykur
1 msk hunang
1 msk sýróp

4 kjúklingabringur
1/2 dl matarolía
Salt og pipar

Byrjaði á að gera kryddhjúpinn ... 

Það var raunar mjög einfalt ...

Einfaldlega setja öll kryddin saman í skál og hræra saman
... ekkert hræðilegt við það :-) 

Svo var bara að setja kjúklingabringurnar í fat og
hella 1/2 dl matarolíu yfir þær og svo krydda með
hluta af kryddblöndunni, ég notaði ekki alla blönduna
enda meir en nóg og hægt að geyma hana í lokuðu boxi
í nokkra mánuði án þess að hún skemmist :-)
Setti kjúklingabringurnar svo til hliðar á meðan ég 
gerði BBQ sósuna.

Byrjaði á því að steikja laukinn þar til hann var mjúkur,
bætti svo hvítlauknum við og steikti í sirka mínútu í viðbót.

Þá var að hella viskíinu út á og leyfði að sjóða þar til
viskíið hafði gufað aðeins upp.

Þá var að bæta tómatsósunni og vatninu út í og
hræra saman við lauk/viskýblönduna. Leyfði þessu
að sjóða í sirka 5 mínútur ...

Þá var komið að því að bæta kryddunum út í ...
fyrst chillíinu ...

svo paprikunni ...

Nammi sinnep ... 

Rauðvínsedikið ...

og Worcestershire sósan.

Þá var það chipotle sósan en það er nýlega orðið
mun auðveldara að nálgast hana, t.a.m. er hún 
farin að vera til í Hagkaup fer örugglega að fást
víðar og vonandi mjög fljótlega á Ísafirði, ef hún er ekki
fáanleg þar nú þegar :-)

Setti eina matskeið af henni út í sósuna.

Svo var það púðursykurinn ...

og sýrópið ...

Blandaði þessu öllu saman ...

og leyfði sósunni að sjóða í sirka 10 mínútur eða þar
til sósan var farin að þykkna. Svo er smekksatriði 
hvort þið viljið skella henni í blandarann til að taka úr
alla köggla en mér fannst það ekki nauðsynlegt. Kryddið
með salt og pipar og bætið að lokum við 2 msk 
af viskí og hrærið saman við sósuna - 
Gott er að vita að sósan geymist í allt að viku 
ef geymd í lokuðu boxi inn í ískáp :-)

Svo var bara að grilla bringurnar.
Grillaði þær augljóslega vel á báðum hliðum en setti 
svo bbq sósuna á bringurnar þegar sirka 10 mínútur
voru eftir af grilluninni. Svo bar ég þetta fram með
salati og hrísgrjónum og auðvitað bbq sósunni
sem var virkilega góð með hrísgrjónunum.

Eins lítið og ég hef verið hingað til af grillmat þá reyndist þetta vera alveg virkilega gott og mun alveg örugglega prófa þessa uppskrift aftur, t.d. með svínakjöti já eða bara með kjúkling aftur því þetta var alveg uppskrift þess virði að nota aftur.

Meira síðar.

Ummæli