Sterkir ananasbitar

Sit hér á flugvellinum í Frankfurt og bíð eftir flugi heim eftir óvenju langa fjarveru. Er ekki frá því að ég hlakki svolítið mikið til að komast heim! Það gengur þó hægt því tengifluginu mínu var aflýst en í staðinn fæ ég að fljúga heim með Icelandair sem er nú alltaf gott.  Það hefur verið svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki einu sinni komist í að blogga fyrir ykkur, sem er nú nokkur skömm finnst mér því ég er með hrúgu af uppskriftum sem bíða þess að vera birtar :-)  Tala nú ekki um að segja ykkur frá einni stórkostlegustu máltíð sem ég hef nokkurntíma fengið og fékk að njóta í gær ... !

Nema hvað, ég var með þessa æðislegu ananasbita í saumaklúbb um daginn - þeir voru alveg hrikalega góðir og eins og svo oft áður - alveg hreint hrikalega einfaldir að gera!

Uppskriftin var eftirfarandi ...
1 ananas
Rifinn börkur af þremur lime-um
2 tsk salt
1 tsk sykur
1/4 tsk chilliduft
1/4 tsk cayennepipar

Byrjaði á að rífa börkinn af þremur lime-um.

Hreinsaði svo ananasinn og skar svo í munnbita.

Blandaði svo saman í skál limeberkinum og öllum
hinum innihaldsefnunum, nema ananasinum ...


Svo var bara að hella úr skálinni yfir ananasbitana ...

Blanda þessu öllu vel saman og njóta!

Þetta reyndist vera alveg hreint fáránlega gott og alveg óhætt að mæla með þessu við hvaða aðstæður sem er  :-) Chillíin rífur aðeins í en ananasinn kemur ótrúlega sætur og góður þarna á móti.  Mæli óhikað með þessu!

Meira síðar.

Ummæli