Ólífubitar

Jæja, löngu kominn tími á nýtt blogg! Það er búið að vera óttalegt flandur á mér en það fer nú vonandi allt að lagast. 

Það voru ótal réttir bornir fram á tapaskvöldinu um daginn. Vitið þið hvað hvernig tapasréttirnir byrjuðu? Þeir voru víst í upphafi gerðir til að bera fram eitthvað til að loka glösunum, þ.e. halda flugunum frá því að detta í það - en spænska orðið tapa þýðir víst lok. Þannig voru fyrstu tapasbitarnir einfaldlega brauðsneiðar, en svo þróaðist þetta alltaf meir og meir og menn fóru að setja álegg á brauðið. Hin sagan er svo hins vegar að tapasbitar séu til að hvetja menn til drykkju. En tapasréttir eru almennt saltir og bragðmiklir sem svo eykur þorsta sem svo verður til þess að barinn selur fleiri drykki :-)

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er nokkuð dæmigerð, en þetta eru ólífubitar. Uppskriftin er þægileg og einföld og úr verða þessir líka bragðgóðu kex/brauðbitar og drykkuhvetjandi eru þeir svo sannarlega!

Uppskriftin endaði svona ...
2 dl hveiti
115 gr smjör
115 gr rifinn brauðostur eða cheddar
100 gr svartar ólífur
1/2 tsk cayenne pipar
Lítil saltklípa

Fyrst var einfaldlega að taka fram matvinnsluvélina
og setja í hana hveiti, smjör og rifinn ostinn.

Vigta svo ólífurnar ...

og bæta þeim út í matvinnsluvélina 
ásamt cayenne og smá salti.
Svo var bara að láta matvinnsluvélina vinna vinnuna sína.

Út kom þetta fína deig sem ég hnoðaði örlítið á
borðinu áður en ég setti það í plastpoka og inn í 
ískáp þangað til ég þurfti að nota það, eða í 
að minnsta kosti 20 mínútur. 

Svo var bara að taka það út úr ískápnum aftur ...
Skipti því í þrjá bita 

og flatti svo úr þeim á borðinu þannig að til urðu
frekar þunnar plötur.

Skar svo tígla í deigið ...

og raðaði þeim svo á bökunarplötu og setti inn í ofninn 
í 8-10 mínútur við 200°C hita.

Út komu þessir líka fínu ólífubitar, en einfalt
var að vita að þeir væru tilbúnir, þeir urðu gullnir og 
lyftust aðeins upp.

Mæli óhikað með þessum, ekta í partý eða jafnvel sem nasl í grillveisluna.

Meira síðar.

Ummæli