Lostafullur súkkulaðibúðingur í bolla

Það er fátt jafn lostafullt og hinn fullkomni súkkulaðibúðingur og þessi sem ég ætla að deila með ykkur í dag var svo rosalegur að hann kemst á topp 10 listann yfir bestu eftirrétti sem ég smakkað yfir ævina. Ekki var verra að það var eiginlega bara gaman að búa hann til.

Uppskriftin var eftirfarandi ... dugar í tvo bolla
1/2 msk kaffiduft (instant)
2 dl mjólk
38 gr sykur
114 gr súkkulaði, notaði 50/50 af 70% súkkulaði og suðusúkkulaði
1 tsk vanilludropar
3 stórar eggjarauður
Þeyttur rjómi, ef vill

Byrjaði á að taka fram ofnskúffuna og setja tvo 
stóra bolla á plötuna þar sem ég á ekki svona lítil form.
Kveikti á ofninum og stillti hann á 160°C.

Tók svo fram skaftpott og setti fyrst í hann kaffiduftið 

og hellti mjólkinni svo út í. 

Svo var bara að stilla á meðal hita og blanda þessu saman. 

Bætti svo sykrinum út í og hrærði stöðugt þar til bæði
kaffið og sykurinn höfðu blandast vel saman við mjólkina.

Tók svo pottinn af heitu plötunni go bætti súkkulaðinu
út í mjólkurblönduna og hrærði vel saman þar til 
súkkulaðið hafði bráðnað og komin var mjúk sósa.

Þá var að blanda vanilludropunum út í og hræra saman við.

Þegar því var lokið var bara að leyfa þessu að standa.

Þá var að taka fram stóra skál og brjóta eggin og setja
eggjarauðurnar í skálina. 

Notaði svo písk til að þeyta eggjarauðurnar létt saman.

Því næst blandaði ég súkkulaðiblöndunni varlega 
saman við eggjarauðurnar.

Því næst var að finna aðra skál og sigti og sía 
súkkulaðieggjablönduna ofan í. 
Einfalt ekki satt?

Þá var lítið annað en að skipta blöndunni á milli bollanna.

Hella svo heitu vatni í ofnskúffuna og setja álpappír yfir.
Setti svo ofnskúffuna inn í ofninn og bakaði í 45-50 mínútur.
Eðlilegur baksturstími hefði þó verið 30-35 mínútur en 
það fer allt eftir því hversu stórar skálar þið notið 
og hversu hátt vatnið nær upp, en vatnið náði alltof 
stutt upp á bollana hjá mér og bollarnir voru fremur stórir.

Nema hvað, út kemur þessi ótrúlega fáránlega, allt að því
undarlega góði eftirréttur sem gott er að bera fram með
þeyttum rjóma.

Þetta var eftirréttur sem ég viðurkenni alveg að kveikti í mér og hann verður alveg örugglega gerður aftur á þessu heimili. Ekki nóg með svo að vera silkimjúkur og hrikalega bragðgóður, þá var hann líka já, lostafullur.

Meira síðar.

Ummæli