Karamellubúðingur

Það er svo merkilegt að eins og ég er farin að vera ágæt í að elda eftir þetta eina og hálfa ár sem bloggið hefur verið í gangi - þá er ég samt alltaf pinku stressuð þegar ég er að gera eftirrétti. Reyndar er ég alltaf pinku stressuð þegar ég er að prófa nýjar uppskriftir, held að það sé einmitt það sem gerir það að verkum að ég hef haldið áfram með þetta blogg, svona hálfgerð fíkn: Hraðari hjartsláttur, spenna - bragðlaukarnir uppspenntir og svo nautnin sem fylgir því að smakka velheppnaðan mat.

Ég bauð samkennurum mínum heim í gær í kvöldmat og þó ég segi sjálf frá þá heppnaðist maturinn nú bara betur en ég þorði að vona. Ég ætla nú samt að byrja á því að deila með ykkur eftirréttinum, aðallega út af því að hann var alveg hrikalega skemmtilegur að gera og enn meira gaman að borða hann :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
2 1/2 dl sykur
2 1/2 msk vatn
7 3/4 dl mjólk
1 vanillubaun (eða 1 1/2 tsk vanilludropar)
5 stór egg
4 eggjarauður

Byrjaði á að taka fram soufflé skálina mína og smyrja að innan.
Augljóslega er líka hægt að gera þetta með mörgum litlum formum,
en þar sem ég á ekki svoleiðis þá hentaði þetta stórvel (og er minni vinna).


Þá var að búa til karamellu. 
Tók fram pönnu og setti á hana 1 dl sykur og 2 1/2 tsk vatn. 
Ég lenti reyndar í smávægilegum vandræðum út af 
því að ég var með of lítinn hita og sykurinn kristallaðist,
en þá var bara að hækka hitann og bæta við vatni ... 

og með smá dash að þolinmæði þá varð til þessi líka fína karamella.
Passið að láta hana ekki hitna of mikið. 
Þegar hún er orðin brún þá er hún tilbúin.

Þá var bara að hella henni í formið og reyna að vinna hratt og láta
hana renna svolítið upp á brúnirnar ... notið ofnhanska.

Klúðraði aðeins með að vinna hratt því ég stoppaði og tók mynd 
en notaði sleikju til að ýta karamellunni aðeins upp á brúnirnar.
Setti formið til hliðar til að búa til búðinginn.

Setti mjólkina í pott og leyfði suðunni að koma upp.


Á meðan suðan var að koma upp þá skar ég vanillubaunina

Suðan kom upp og tók þá mjólkina af hitanum.

Svo var að skafa vanillufræin innan úr bauninni ...

og setja þau út í mjólkina ásamt vanillubauninni og leyfa svo 
mjólkinni að draga í sig vanillubragðið í sirka 10 mínútur.

Á meðan var að halda áfram með búðinginn ... byrjaði á að brjóta
fimm egg og setja í skál ásamt 5 eggjarauðum.

Notaði svo handþeytara til að þeyta saman. 

Þeytti svo restinni af sykrinum smátt og smátt út saman við.

Þegar blandan var orðin létt og ljós þá snéri ég mér aftur að mjólkini.

Tók vanillubaunina upp úr.

Hellti svo mjólkinni í mjórri bunu út í skálina og þeytti stöðugt á meðan.

Munaði engu að skálin væri ekki nógu stór :-)

Þá var bara að lokum að sigta búðinginn ofan í formið ...

Voilá, tilbúinn til að fara inn í ofninn sem stilltur var á 180°C, blástur.
Þetta var þó ekki alveg svo einfalt ...

Tók fram steikarpottinn og lét renna í hann alveg sjóðandi heitt vatn.

Setti formið ofan í og miðað við að vatnið næði hálfa vegu upp.

Svona fór þetta svo inn í ofninn og var þar í sirka klukkustund,
en 40-50 mínútur ættu að duga. Hann er tilbúinn þegar hnífur
kemur hreinn upp þegar stungið er í miðju búðingsins.
Eftir 10 mínútur setti ég álpappír yfir og hefði jafnvel átt að 
gera það aðeins fyrr, en held það hafi nú ekki komið að sök.

Út kom þessi fíni búðingur og þá þurfti bara að ná forminu upp úr
steikarfatinu og setja inn í ískáp í nokkrar klukkustundir.

Lítur vel út ekki satt? :-)

Þá var stundin runnin upp - hafði þetta raunverulega heppnast?
Hjartað sló töluvert hraðar meðan ég notaði lítinn beitan hníf
til að skera kringum búðinginn og losa hann úr forminu.

Stund sannleikans runnin upp. Tók köku disk (mæli með að 
nota djúpan kökudisk sem ég því miður átti ekki ...) og hvolfdi
forminu ofan á og lyfti svo forminu upp ...

Út kom þessi líka snilldarlega útlítandi karamellubúðingur ...
og karamella út um allt (sem er svo ástæðan fyrir að heppilegra
væri að nota djúpan kökudisk :-) og vel smakkaðist hann!

Þetta reyndist vera hinn skemmtilegasti eftirréttur - bragðgóður og merkilega léttur í maga. 
Ekki skemmir hvað hann lítur svakalega vel út á veisluborðinu!

Meira síðar.

Ummæli