Bombay kjúklingur með kóriandersósu

Eins og ég sagði ykkur í síðasta bloggið þá fékk ég elskulega samkennara mína í mat um daginn og eldaði fyrir þá karamellubúðin og svo þessa uppskrift sem ég ætla að deila með ykkur í dag.  Ég er eiginlega komin með algert æði fyrir því að grilla/steikja kjúkling. Kjúklingur er að mörgu leiti alveg hreint frábært hráefni, enda dregur hann í sig bragðið af öðrum innihaldsefnum og er alltaf svo meir og góður.  Ég var reyndar að velta fyrir mér að prófa þessa uppskrift einhverntíma með tófú, held að það gæti líka komið mjög vel út.

Nema hvað, þetta reyndist hin besta uppskrift og ég mæli óhikað með henni. Svo er reyndar ein bónus pastauppskrift hérna neðst, kíkið á hana líka - ekki slæmt, tvær uppskriftir í einni :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 4-6.
1 1/2 tsk kórianderfræ
2 tsk svört piparkorn
1 tsk cuminfræ
6 hvítlauksgeirar
Engiferbiti
3 msk matarolía
1/2 dl vatn
1 msk cayenne pipar
2 msk sítrónusafi
1 1/2 tsk gróft salt
1 dl ferskur kóriander
6 kjúklingabringur

Sósan
2 dl ferskur kóriender
3 hvítlauksgeirar
1 jalapeño
100 gr valhnetur
75 ml sítrónusafi
1/4 tsk sítrónusafi
1/4 tsk malað cumin
1 tsk gróft salt
1/2 tsk malaður svartur pipar
1/2 dl vatn

Tók kórianderfræ, cuminfræ og svörtu piparkornin og hitaði aðeins á pönnu 
(þar til íbúðin var farin að ilma eins og ég væri komin til fjarlægra landa).
Hellti fræjunum svo af pönnunni og í lítinn malara 
(var einu sinni kaffimalari, er núna notaður fyrir krydd)

Setti möluð kryddin svo í litla matvinnsluvél, ásamt ...

... hvítlauknum, engiferbitanum (notaði sirka 4 cm bita), olíu, vatni,
cayennepipar, sítrónusafa og salti og lét vélina vinna galdra sína ...

og úr varð þessi fína og ilmandi blanda.

Helti kryddblöndunni úr matvinnsluvélinni og í form, bætti kóriandernum
út í og blandaði öllu saman. Glöggir lesendur taka eftir því að kórianderinn
er örlítið ógirnilegur, en það kemur til að aldrei þessu vant var ekki til 
kóriander á Ísafirði og þá eru góð ráð dýr! Nema hvað, haldið þið að
ég hafi ekki verið svo fyrirhyggjusöm um daginn þegar ég keypti 
kóriander að setja hann inn í frysti þegar ég notaði hann ekki strax!
Þetta er þess vegna frosinn kóriander sem þið sjáið þarna.
Ég myndi nú ekki nota hann í salöt, en hann er tilvalinn í svona verkefni
þar sem enginn sér hvernig hann lítur út en bragðið er alltaf jafn gott :-)

Þá var bara að setja kjúklingabringurnar út í og nudda þeim vel 
og vandlega upp úr marineringunni!

Setti svo bara plast yfir og inn í ískáp í sirka 6 klukkustundir,
en einnig væri gott að láta þær marinerast yfir nótt.

Þá var það sósan. Setti kóriander og hvítlauk í matvinnsluvélina ...

ásamt hnetunum, 4 niðursoðnum jalapeño piparbitum ... 

... sítrónusafa, cumin, salti og pipar og vatni og hakka allt saman!


Voilá! Úr verður þessi líka girnilega (og fáránlega bragðgóða) sósa.
Gæti varla verið einfaldara :-)

Svo var bara að nota fínu grillpönnuna til að steikja kjúklingabringurnar,
svona af því á á ekki grill ... 10-15 mínútur á hvorri hlið.

Til urðu þessar líka djúsí og fáránlegu bragðgóðu kjúklingabringur.


Svo bar ég þetta fram með sósunni auðvitað, naanbrauði, hummus,
sítrónu og lime, rúkólasalati, papriku og gúrkum, og tamarindþykkni.

Þetta reyndist vera alveg hreint rosalega bragðgott, kjúklingurinn og sósan hreinlega léku við bragðlakana með sterku en samt ekki of sterku bragði og svo kom sítrónan og kórianderinn þarna einhvern veginn undirliggjandi og gerði alveg hreint ótrúlega ferskt bragð samt á móti hitanum í kryddunum og jalapeñoinu. Namm, ætla svo sannarlega að borða þetta aftur og svo var alger snilld daginn eftir að sjóða smá spagettí, skera kjúklinginn í bita og setja saman við spagettíið ásamt afgangnum af sósunni og rúkóla. Með besta pasta sem ég hef smakkað lengi. 

Mæli óhikað með þessari uppskrift.

Meira síðar.

Ummæli

Hrefna sagði…
Heyrðu, ég get alveg komið í heimsókn til þín þegar þú eldar þetta næst :)
En annars verð ég að viðurkenna að það er orðið svolítið langt síðan ég skoðaði síðuna síðast, og var ekki búin að sjá breytingarnar. Hún er svaka flott!
Kveðja,
Hrefna