Pastasalat með ítalskri salatsósu

Ég reyni svona almennt að taka með mér eitthvað í hádegismat í vinnuna. Leiðist alveg óskaplega að enda alltaf á sömu óspennandi samlokunni eða það sem verra er - endalausri kaffidrykkju.  Yfirleitt reyni ég að taka bara með mér afgang frá kvöldmatnum, en stundum langar mig í eitthvað almennilegt og þá skelli ég yfirleitt í eitthvað einfalt pastasalat. Ég rakst á uppskrift af ítalskri salatsósu um daginn, í bók frá Rachel Ray ef ég man rétt, og datt þá í hug að gera eftirfarandi pastasalat, sem mér fannst reyndar heppnast virkilega vel :-)

Uppskriftin endaði svona ...
1/2 bréf sterkt pepperoni
2-3 sveppir
1/4 sæt kartafla
1/2 rauð paprika
1 kúla mozzarella ostur
1/2 laukur (rauðlaukur væri jafnvel betri, átti bara ekki slíkan)
1 tsk basilíka
1 tsk hvítlaukssalt
1 tsk oreganó
1 msk chipotle sósa (keypti hana um daginn í Kosti, líka hægt að nota bara tómatpúrru og 1 þurrkað chillí)
2 msk rauðvínsedik
75 ml ólífuolía
Salt og pipar
250 gr pasta.

Þetta var svo hversdagslegt að ég næstum gleymdi að taka myndir.
En ég skar sveppina í sneiðar, skar pepperóníið gróft, paprikuna 
sömuleiðis, en skar sætu kartöfluna frekar smátt.

Skar laukinn smátt, en mozzarella ostinn gróft.  Allt saman í skál.

Dreifðu basilíkunni yfir og blandaði öllu saman.

Þá var að gera sósuna. Tók fram litla skál og setti í hana
hvítlaukssaltið og oreganóið.

Bætti svo chipotle sósunni og rauðvínedikinu út í.

Blandaði öllu saman með gaffli og bætti svo
ólífuolíunni út í.

Svo var bara að hræra öllu vel saman.

Var svo búin að sjóða pasta og bætti út í, hellti sósunni yfir
og svo var bara að blanda öllu vel saman.

Þetta reyndist alveg hrikalega gott.  Sérstaklega kom mér á óvart hversu svakalega gott var að hafa sætu kartöfluna þarna - mun alveg örugglega gera þetta aftur!

Meira síðar.

Ummæli