MangóRækjuBollur


Tapaskvöldið var vægast sagt vel heppnað - einn af vinsælli réttum kvöldsins var þessi sem ég ætla að deila með ykkur í dag - MangóRækjuBollur. Eins og svo oft áður þá hafði ég miklar efasemdir um að þetta myndi virka eins og það átti að gera en auðvitað þurfti bara örlitla þolinmæði og þá tókst þetta allt saman ljómandi vel :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
280 gr hveiti
4 msk garam masala
2 tsk túrmerik
6 græn chillí
2 lítil mangó
8 vorlaukar
400 gr rækja

Sósa
1 msk cumin fræ
1 dós grísk jógúrt
Cayenne pipar

Skellti saman í skál hveiti, garam masala og túrmerik.

Tók til chillíin ...

hreinsaði mest af fræjunum og skar frekar smátt ...

Bætti þeim svo út í hveitiskálina.

Gerði svo smá brunn í hveitið og hellti 2 dl af vatni út í og hrærði saman 

... allt þar til deigkúla myndaðist - mjög þykkt og frekar blautt deig

Þá var að taka fram rækjuna.  
Var með þessa líka flottu rækju frá Kampa ...

og saxaði hana niður ... sem var nú hálfgerð synd - en vel þess virði!

Tók svo mangóin, afhýddi þau og skar í smáa bita.

Hellti rækjunni, mangóinu og lauknum í skálina með deiginu og
svo var bara að nota hendurnar til að hnoða þessu öllu saman ...

Vel og vandlega.  
Þetta krafðist þolinmæði að blanda vel saman deiginu
og hinum innihaldsefnunum en namm hvað það var þess virði.
Svo var bara að nota skeið og annan lófann til að móta munnbitastórar 
bollur og skella í djúpsteikingarpönnuna og steikja.

Því miður þá klikkaði eitthvað í myndatökuninni þetta kvöldið 
þannig að ég á því miður ekki myndir af djúpsteikingunni og endanlegri
útkomu en þið getið séð þær samt í stóra hvíta fatinu hér á þessari mynd.

Nammi nammi namm hvað þetta var skemmtilegt kvöld með fullt
af mjög bragðgóðum mat :-)

Mæli hiklaust með þessum og hann er algerlega vesenisins virði.  Ég reyndar klikkaði á sósunni í stressinu yfir öllu sem ég þurfti að gera = 20 manns í mat = kosturinn við að vera með tapas! Það kom nú reyndar ekki að sök og þessi var nú alveg í uppáhaldi þetta kvöld.  Sósan er samt rosa einföld, bara þurrsteikja cuminfræ á pönnu og blanda þeim svo út í gríska jógúrt og hræra saman og strá smá cayanne pipar yfir.

Meira síðar.

Ummæli

Vá hvað þetta er flott hlaðborð Albertína :)
Verð að prófa þessar bollur við tækifæri. Ég hugsaði líka að það væri hálgerð synd að saxa niður Kampa-rækjurnar ;) en örugglega þess virði, sé ég :)
Vestfirðingurinn sagði…
Takk takk :) Já, þetta var svakalega gott!