Mac'n'Cheese með havarti-osti (Matarkaka)

Ég fékk góða vini í mat í kvöld.  Síðustu vikur hafa verið svolítið erfiðar og þá er fátt betra eftir annasaman dag og tala nú ekki um með annasamt kvöld framundan að bjóða vinum í mat og elda eitthvað einfalt og gott.

Í kvöld skellti ég í Mac'n'Cheese með havarti-osti og grillaði kjúklingabringur á pönnu, en ég deili þeirri uppskrift með ykkur síðar. Blogg kvöldsins verður tileinkað "matarkökunni" eins og einn lítill gutti kallaði þetta og borðaði með bestu lyst.

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 6-8
500 gr makkarónur (pasta)
Brauðrasp
4 skallottulaukar
4 hvítlauksgeirar
5 beikonstrimlar
3 msk hveiti
1 líter matreiðslurjómi
1 tsk timijan
Salt og pipar
2 dl rifinn havartiostur plús smávegis til að dreifa yfir
4 dl rifinn brauðostur
1 tsk þurrkuð steinselja

Ég var búin að þurrka snittubrauðsafgang sem ég 
átti frá því um daginn og skellti þeim í matvinnsluvélina
og hakkaði vel og vandlega.

Úr varð þetta líka fínasta brauðrasp.

Byrjaði svo á að sjóða makkarónurnar og setti svo
til hliðar á meðan ég bjó til ostasósuna.

Þá var að hreinsa og saxa laukana.

Saxaði þetta frekar smátt.

Tók svo beikonið og skar í bita.

Setti svo olíu á pönnu og steikti laukinn og beikonið.

Þegar þetta var svo steikt þá bætit ég hveitinu út í.

Hellti svo fyrst sirka 1-2 dl rjóma út á pönnuna og 
notaði þeytara til að blanda saman hveitinu og rjómanum.
Hellti svo restinni af rjómanum út í og leyfði suðunni 
að koma upp.

Bætti svo timijaninu út og hrærði vel.
Leyfði þessu svo að sjóða svolítið og 
rjómablöndunni að rýrna aðeins.

Á meðan rjómablandan sauð var tilvalið að rífa niður ostinn.



Svo var bara að bæta ostinum smátt og smátt út í og blanda
vel saman við rjómablönduna.
Kryddaði svo aðeins með salti og pipar.

Þannig varð til frekar þykk ostasósa.  

Þá var bara að taka fram eldfast form og smyrja það.
Hellti svo makkarónunum út í og hellti svo sósunni yfir.
Notaði svo sleif til að blanda öllu saman.

Dreifði svo brauðraspi yfir ...

Dreifði svo að lokum örlitlum havarti osti yfir, kryddaði með
salt og pipar og svo að lokum dreifði ég steinseljunni yfir.

Setti þetta svo í sirka hálftíma inn í 180°C heitan ofn og út kom
þessi líka girnilega matarkaka.

Þetta reyndist vera hin allra besta máltíð sem virkaði vel bæði fyrir unga og aldna.  Mun alveg örugglega prófa þessa aftur :-)

Meira síðar.

Ummæli