Empanadas með kjötfyllingu og sveppafyllingu


Enn heldur tapasþemað áfram! Í þetta skiptið eru það empanadas sem mig langar að deila með ykkur. Þetta eru djúpsteiktir fylltir hálfmánar og var ég með tvennskonar fyllingar; nautahakk og sveppi.

Þetta reyndist vera bæði bragðgott og eiginlega bara pinku skemmtilegt að gera :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
Deigið
5 dl hveiti
1 tsk salt
1 tsk sykur
5 msk mjúkt smjörlíki eða grænmetisfita
1 egg
80 ml hvítvín


Kjötfylling
Ólífuolía
1 stór laukur
500 gr nautahakk
3-4 hvítlauksgeirar
1-2 tsk oreganó
Salt og pipar
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dl grænar ólífur, skornar í tvennt
~1/2 dl rúsínur

Sveppafylling
2 msk smjör
250 gr sveppir
1 laukur
1-2 msk sítrónusafi
1 dl hvítvín
1-2 tsk oreganó
1 tsk basilíka
Salt og pipar
Ólífuolía


Fyrst var að gera deig.
Setti í matvinnsluvélina hveiti, sykri og salti og fituna.
Blandaði vel saman.

Bætti þá út í egginu og hvítvíninu og blandaði saman
þar til deig hafði myndast. Ef deigið er of þurrt, þá
 er lítið mál að bæta bara smá víni í viðbót út í blönduna.

Úr varð þessi líka fína deigkúla. 

Þá var að gera fyllinguna. Byrjaði á að skera laukinn og hvítlaukinn.

Hellti svo ólífuolíu á pönnu og steikti laukana.

Bætti svo kjötinu út í og steikti þar til það var allt brúnað.

Þá var að bæta ólífunum út í.

Svo auðvitað niðursoðnu tómötunum.

Blanda öllu vel saman og bæta rúsínunum út í ...

og blanda svo kryddunum út í.

Leyfði að malla á hægum hita í sirka korter eða þar til 
mesti vökvinn hafði gufað upp.

Skar sveppina í frekar grófa bita, samt ekki of grófa 
(haha mikil hjálp í þessari lýsingu ekki satt??)
Skar laukinn frekar fínt.

Skellti svo smjöri í djúpa pönnu og bræddi - hellti svo 
sveppunum og lauknum út í. 

Skar hvítlaukinn smátt og bætti út á pönnuna. 

Bætti oreganó og basilíku út á - sem og salt og pipar.

Leyfði þessu að steikjast - bætti við smá smjöri og hellti svo
sítrónusafanum út á pönnuna.

Svo var bara að hella hvítvíninu út á og svo leyfa þessu að 
sjóða og hvítvíninu að gufa upp. 

Þá var að gera hálfmánana.  Skipti deiginu í 3 hluta.

Flatti deigbitana út og notaði glas til að skera út hringi.
Setti svo sirka 1-2 tsk af  fyllingu í miðjuna.

Setti svo kalt vatn í skál og notaði svo puttann til að dreifa vatni
hringin í kringum deighringinn til að hann lokaðist betur saman.

Svo var bara að loka hringnum og mynda hálfmána.

Gerði það sama með sveppafyllinguna.

Safnaði þeim svo saman á bökunarpappír.

Svo var bara að djúpsteikja - mikið fjör :-)
Passið að olían sé nógu heit og snúið hálfmánunum a.m.k. einu sinni.

Eins og áður þá gleymdi ég því miður að taka mynd af lokaafurðinni
en þær má sjá á bakkanum á bak við grænu skálina.

Þetta var mjög gott og ég get eiginlega varla gert greinarmun á milli hvor fyllingin mér þætti betri.  Það var svo mjög gott að dýfa þeim í sósuna sem ég gerði fyrir saltfiskbollurnar - Mæli óhikað með þessum.  Það er alveg pinku vinna að gera þetta en samt ótrúlega þægilegt og skemmtilegt, ekta fyrir fjölmennt matarboð með mörgum smáréttum.

Meira síðar.

Ummæli