Svepparisotto

Ég bauð mömmu í mat um daginn og við vorum samála um að okkur langaði bara í eitthvað bragðgott en létt í maga.  Þar sem við erum báðar líka miklir aðdáendur sveppa, þá ákvað ég að skella einfaldlega í svepparisotto - einfalt, bragðgott og já, tiltölulega þægilegt þó það krefjist smá þolinmæði að gera það almennilega :-)

Uppskriftin endaði svona ... fyrir 2-3
75 gr smjör
1/2 blaðlaukur
1-2 hvítlauksgeirar
90 gr sveppir
1 tsk timjan
1 tsk marjoram
75 ml hvítvín
250 gr risotto eða grautarhrísgrjón
750 ml kjúklinga- eða grænmetissoð
Salt og pipar
Rifinn parmesanostur eftir smekk

Byrjaði á að bræða smjörið á pönnu

Skar svo blaðlaukinn frekar fínt

Skar hvítlaukinn sömuleiðis í bita.

Skellti svo laukunum út á pönnuna og steikti á pönnu
í smá tíma, þar til laukurinn var farinn að mýkjast,
en þó ekki brúnast.

Bætti svo sveppunum út í, átti villta sveppi í frystinum
sem pössuðu vel í þennan rétt. 

Bætti svo út í marjoraminu 

og timíaninu. Blandaði öllu saman og leyfði að steikjast
í smá stund, sirka 3 mínútur.

Hellti svo hvítvíninu út í, hrærði reglulega og leyfði að
steikjast þar til hvítvínið hafði að mestu gufað upp.

Þá voru það hrísgrjónin.  Ég notaði nú bara grautarhrísgrjón
þar sem það eru ekkert alltaf til risotto hrísgrjón á Ísafirði,
auk þess sem þau eru nú bara alveg í dýrari kantinum.
Grautarhrísgrjónin virka alveg líka :-)

Hellti hrísgrjónunum út á pönnuna

og reyndi að blanda þeim vel saman við smjörið.

Svo byrjaði fjörið.  Hella smá soði út á pönnuna og
hræra og hræra þar til soðið hefur gufað upp.

hella svo aðeins meiru og hræra meira og meira -
allt þar til soðið er búið og allt gufað upp.
Hrísgrjónin ættu að vera al dente, 
þ.e. pinku hörð í miðjunni 

Svo var bara að dreifa parmesanostinum yfir,
ég setti svolítið mikið enda einlægur ostaaðdáandi.
Svo var bara að bera fram.

Það er svo merkilegt með risotto, það er ekkert nándar nærri jafn erfitt að gera það og maður ímyndar sér.  Það er líka rosalega gott og ekki skemmir fyrir að það er ódýrt :-)  Það þarf bara örlitla þolinmæði og voilá, þú ert kominn með frábæran kvöldmat!

Meira síðar.

Ummæli